132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:46]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu nýrra eigenda að velja nafn á fyrirtækið og Ríkisútvarpið er svo sem skemmtilegt nafn á einkafyrirtæki. Ég sé ekkert athugavert við að það heiti það áfram og vísi þá í söguna.

Hæstv. menntamálaráðherra leggur fram frumvarp þar sem þess er sérstaklega getið að ekki standi til að selja. Nú er það svo, frú forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið hreinan meiri hluta á þingi og það er miður. Það kemur þá fram í því að sá flokkur þarf að gera margar málamiðlanir í stjórnarsamstarfi þar sem samstarfsflokkur okkar er ekki sammála um ýmis atriði. Stefna ríkisstjórnarinnar verður því aldrei sú sama og stefna Sjálfstæðisflokksins, það liggur í augum uppi. Hún verður heldur ekki sú sama og stefna Framsóknarflokksins, menn verða að gera málamiðlun. Þó að ég styðji ríkisstjórnina til flestallra verka — þau eru mörg mjög góð, hún hefur gert afskaplega góða hluti og ég er mjög ánægður með ríkisstjórnina og styð að sjálfsögðu alltaf fjárlagafrumvarpið, sem er nú meginfrumvarpið — þá eru ýmis mál sem menn eru ekki alveg sáttir við og þar á meðal eru málefni Ríkisútvarpsins. Ég vil frekar sjá þá lausn sem ég legg hér fram, að það verði selt.

Hins vegar lendi ég í vanda þegar ég á að fara að velja á milli þess hvort ég styðji frumvarp hæstv. menntamálaráðherra eða ekki vegna þess að það er þó alla vega pínulítið skref í áttina að því sem ég hef lagt til. Ég mun því væntanlega samþykkja það. Ég mun væntanlega líka samþykkja þennan óskaplega slæma nefskatt þar sem hann er betri en útvarpsgjaldið sem er ótrúlegt nú á tímum.

Ég ætla að bíða með að ræða persónuafsláttinn til næsta andsvars því að tími minn er útrunninn.