132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum og reyndar einnig lögum um tekjuskatt og eignarskatt og brottfall laga um Ríkisútvarpið sem tveir hv. þingmenn flytja, Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson.

Ég vil byrja á því að lýsa mig algjörlega ósammála þessu frumvarpi sem gengur út á að einkavæða Ríkisútvarpið. Hins vegar vil ég segja að frumvarpið, þótt ég sé því andvígur, er að mörgu leyti sett fram í rökréttu samhengi. Þegar talað er um rök og innra samhengi hlutanna þá stendur þetta frumvarp sýnu framar frumvarpi ríkisstjórnarinnar að mínu mati og ég ætla að gera grein fyrir því hvers vegna ég tel svo vera.

Mig langar til að byrja á því að nefna það sem fram kom í máli hv. framsögumanns, Péturs H. Blöndals, að þetta frumvarp verði rætt í þeirri nefnd sem því er vísað til, sem mun vera menntamálanefnd, um leið og frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið. Ég legg þá áherslu á að frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um Ríkisútvarpið verði einnig skoðað.

Ef ég skil málin rétt gengur þetta frumvarp út á eftirfarandi atriði: Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi og það verði selt. Starfsmenn fái þar forkaupsrétt. Starfsmenn flytji réttindi yfir til hins nýja fyrirtækis á sambærilegum grunni og bankamenn gerðu á sínum tíma. Ég vil vekja athygli á því að þar með yrðu ýmis réttindi starfsmanna skert og þá væntanlega á svipuðum nótum og er að gerast við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins samkvæmt stjórnarfrumvarpinu. Sem sagt, gengið er út frá því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi og það selt.

Síðan er hugmyndin sú að útvarpsráð verði starfandi því að það er ekki svo að útvarpsstarfsemi verði öll færð út á markaðinn. Það má eiginlega segja að framkvæmdin verði markaðsvædd því að eftir sem áður kemur fjármagn inn til þess að sinna tilteknum félagslegum skyldum sem eru skilgreindar í frumvarpinu. Þær eru að mínum dómi góðra gjalda verðar. Þar er kveðið á um almenna fréttaþjónustu þar sem vettvangur verður fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni og varða almenning. Þar er vísað í skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og talað um fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þar er vísað í listir og bókmenntir, vísindi, sögu tónlistar, að almenna fræðslu skuli veita og að send verði út fræðsludagskrá í samráði við fræðsluyfirvöld og gerðir sjálfstæðir dagskrárþættir er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega. Þar er talað um að miðað verði við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, lögð sérstök rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, veitt skuli öll sú þjónusta sem unnt sé með tækni útvarpsins og þjóðinni megi að gagni koma. Þar er líka vísað í frumflutt dagskrárefni sem nauðsynlegt sé að hafa á boðstólum.

Hver á að ákveða þetta? Það er ekki markaðurinn sem á að kalla eftir því heldur er það pólitískt skipað útvarpsráð sem á að fá skattpeninga til ráðstöfunar og ákveða á grundvelli þessara ágætu en almennu reglna — það eru stjórnmálamenn eða fulltrúar þeirra, það er meiri hlutinn á Alþingi sem á að ráða því hvernig dagskrárgerð í íslensku útvarpi og sjónvarpi er. (PHB: Eins og í dag.) Eins og í dag, segir hv. þingmaður. Já, að vissu leyti. Í dag búum við við almenn útvarpslög þar sem þessar almennu skilgreiningar eru fyrir hendi. Síðan er það útvarpsráð sem hefur eftirlit með því að þeim lögum og reglum sé fylgt og hefur að vísu einhverja frumkvæðismöguleika í tillögugerð en að uppistöðu til er þetta gert innan stofnunarinnar, innan Ríkisútvarpsins. Þannig er það í dag.

Ég tel að við eigum ekki að fara þá leið sem hv. þingmenn leggja hér til, að fela pólitískt skipuðu útvarpsráði, sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann í landinu á hverjum tíma, að ráðstafa peningum, m.a. í fréttatengda þætti, í fréttatengt efni. Mér finnst þetta vera mikill veikleiki á þessu frumvarpi. Í stað þess að fara inn á þessa braut tel ég að við eigum að efla stjórnsýsluna innan Ríkisútvarpsins og opna það fyrir straumum, öðrum en þeim sem koma úr þessum sal. Ég vil vissulega hafa tengslin við Alþingi inn í Ríkisútvarpið en ég vil opna það enn betur og losa um hin pólitísku heljartök á þessari stofnun.

Þingmennirnir sem flytja þetta frumvarp vilja hins vegar miðstýra á pólitískum forsendum allri dagskrárgerð í landinu eða öllu heldur ráðstöfun fjármuna sem fara frá skattborgurunum til dagskrárgerðar, ekki bara í skemmtiefni eða menningarlegu efni heldur líka í fréttatengdu efni.

Síðan má spyrja hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar byggi ekki að vissu leyti á ákveðinni miðstýringu einnig. Jú, það gerir það.

Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar er útvarpsstjóra falið einræðisvald yfir allri dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu og öllu mannahaldi. Hann fær einræðisvald yfir þessu. Hann þarf að sönnu að starfa með tilliti til almenns lagaramma, svipað og hér er gert, en hann fær einræðisvald. Þetta tel ég vera mikinn veikleika í stjórnarfrumvarpinu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að stæði hann frammi fyrir tveimur kostum, óbreyttu ástandi Ríkisútvarpsins annars vegar og frumvarpi ríkisstjórnarinnar hins vegar, mundi hann styðja stjórnarfrumvarpið því það sé þó í átt að einkavæðingu, það sé skref í þá átt sem hann vill ganga. Það er alveg rétt. Vissulega er frumvarp ríkisstjórnarinnar skref í átt að því að einkavæða Ríkisútvarpið. En ég hef verið að viðra þá hugsun að undanförnu og spyrja þeirrar spurningar hvort menn geti haft það besta af öllum heimum. Ef við förum út á þá braut að setja Ríkisútvarpið inn á vettvang markaðar þá spyr ég: Eigum við annarra kosta völ en að halda alla leið? Eru menn alveg vissir um að þá muni ríkja sú almenna sátt sem verið hefur um Ríkisútvarpið og fjármögnun þess? Getur verið að menn séu að rjúfa þá sátt sem verið hefur? Vissulega hefur hún ekki verið alveg algild. Það eru hópar í þjóðfélaginu sem hafa verið mjög andvígir því að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins og sagt að það sé eðlilegt að þeir eigi kost á að neita því að greiða gjöldin. Almennt séð, þegar á heildina er litið, hefur verið tiltölulega mikil sátt í samfélaginu. Ég held að það sé óhætt að segja það þó ég ætli ekki að gera lítið úr andófi þeirra sem hafa verið þessu andvígir. En þegar á heildina er litið þá hefur verið sátt um þetta.

Ég er ekki viss um að sú sátt verði fyrir hendi af hálfu þeirra sem hafa varið Ríkisútvarpið hvað harðast eftir að farið hefur verið með það út á markaðstorg í formi hlutavædds fyrirtækis, ég er ekki viss um það. Þegar byrjað er að fjarlægja stofnunina eigendum sínum, eins og gert hefur verið, þá spyr ég þeirrar spurningar. Ég hef ekki gefið mitt endanlega svar við því en þetta er spurning sem ég tel þess virði að velta fyrir sér og aðstandendur stjórnarfrumvarpsins verða að skoða hvort þeir séu með þessu að rjúfa þá sátt sem hefur verið um Ríkisútvarpið.

Ég er ekki viss um að við greiðum hvort sem það er nefskatt eða afnotagjöld með glöðu geði eftir að stofnunin hefur verið gerð að hlutafélagi. Ég vil alla vega spyrja þeirrar spurningar. Ég er mjög ósáttur við að fjarlægja stofnunina eigendum sínum, þjóðinni, eins og ráð er fyrir gert í stjórnarfrumvarpinu.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Af því að ég tók eftir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur óskað eftir andsvari þá vil ég spyrja hann, hinn mikla markaðssinna, hvernig hann rökstyðji það að skattpeningum, fjármunum frá skattgreiðendum, verði ráðstafað á þann hátt sem hann leggur hér til — að pólitískt kjörið útvarpsráð, sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann hverju sinni, ákveði hverjir fá peninga t.d. til að gera fréttatengt efni.