132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Út af þeirri fyrirspurn sem hér hefur verið lögð fram og því svari sem hæstv. menntamálaráðherra gaf vil ég segja og taka undir það sem mér finnst hafa verið almannarómur í landinu að í þessu tilviki hafi hæstv. menntamálaráðherra tekist ákaflega vel til við að velja starfsmann til að stýra Ríkisútvarpinu. Það er ljóst miðað við hvernig að þessu var staðið að alltaf má hafa skoðanir á því hvernig á að gera það en af því sem kom fram í umsögnum manna skil ég vel að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu í menntamálaráðuneytinu að Páll Magnússon hefði yfirburðaþekkingu og hæfni í þetta starf. Ég tel að við höfum séð það líka eftir á að það var vel valið og margt hefur breyst til ágætis í stofnuninni þó að maður tali ekki um það allra besta, að hafa svona góðan fréttalesara með öðrum góðum sem þar eru.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég var ákaflega ánægður með þann mann sem var valinn í (Forseti hringir.) starf útvarpsstjóra að þessu sinni.