132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[12:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Eins og forseti hefur kynnt er á þskj. 645 fyrirspurn frá mér til menntamálaráðherra um samning um menningarmál milli menntamálaráðuneytis og Eyþings. Það eru tvær spurningar:

1. Hvað líður gerð samnings um menningarmál milli menntamálaráðuneytis og Eyþings?

2. Hvenær er áætlað að skrifa undir slíkan samning?

Virðulegi forseti. Því miður neyðist ég til að leggja þessa spurningu fram núna aftur. Ég lagði hana fram fyrir einu ári síðan og við ræddum þetta þá, ég og hæstv. menntamálaráðherra. Þess vegna er kannski rétt að fara örlítið yfir hvers vegna spurt er. Það er auðvitað vegna þess að á fundi Eyþings í ágúst 2002 ræddi þáverandi menntamálaráðherra Tómas Ingi Olrich um landshlutasamning um menningarmál og talaði um þetta gagnvart Eyþingi. Eyþing greip strax boltann á lofti og skrifaði menntamálaráðuneytinu bréf. Brugðist var tiltölulega fljótt við því vegna þess að 14. apríl 2003, eða nokkru fyrir kosningar, var ágætur skrifstofustjóri ráðuneytisins sendur norður og lýsti því þar yfir að ráðuneytið væri reiðubúið til samstarfs um gerð menningarsamnings.

Eyþing skipaði þá þegar fjögurra manna nefnd sem vann vel, skilaði drögum og stefnuyfirlýsingu til ráðuneytisins þá um haustið en formlega að mér skilst 10. febrúar 2005. Á aðalfundi Eyþings í september 2004 var þetta samþykkt og m.a. kosið í menningarráð. Síðan hefur mikið verið reynt að ýta á þetta mál en ekki gengið.

Á fundi þingmanna Norðausturkjördæmis 16. janúar sl. með stjórn Eyþings kom enn einu sinni fram óánægja þeirra með að ekki tækist að þoka þessu máli áfram og það sem verra var að það gengi illa að fá fund með ráðuneytinu til að ræða þessi mál. Svo ég grípi aðeins niður í ræðu hæstv. ráðherra frá því í fyrra í svari til mín þá sagði ráðherra m.a., með leyfi forseta:

„Ég hef ekki haft tækifæri til þess að hitta fulltrúa Eyþings frá því að ég fékk þessi gögn í hendur“ — það er að segja frá 10. febrúar 2005 — „en tel að af fundi okkar geti orðið fljótlega.“

Þess vegna kemur mér það spánskt fyrir sjónir, virðulegi forseti, að fulltrúar Eyþings skuli enn í janúar 2006 kvarta yfir því að ekki gangi með málið og þess vegna er þessi fyrirspurn aftur borin fram, orðrétt frá því í fyrra.

Virðulegi forseti. Ég vænti svars frá ráðherra um þetta en geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að er búið að endurnýja menningarsamninginn við Austurland sem betur fer og búið að skrifa undir nýjan samning við Vestlendinga, í desember að mig minnir og 15 millj. á fjárlögum, þannig að ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari með menningarsamninginn um Eyþing en eyði ekki tíma sínum í að segja okkur frá Austfirðingum og Vestlendingum vegna þess að við vitum allt um það.