132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fjarskiptasafn Landssímans.

429. mál
[13:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn hefur þjóðminjavörður upplýst mig um að þegar Þjóðminjasafn Íslands tók við gömlu Loftskeytastöðinni og sýningunni í húsinu árið 2004 með samningi við Símann hafi verið kveðið á um að safninu bæri að gera sögu fjarskipta sýnilega í húsinu án þess að það væri skuldbundið til að halda núverandi sýningu óbreyttri. Sýningin sem verið hefur í húsinu er úrelt og verið er að endurskoða hana.

Með vorinu verður opnuð sýning í breyttu formi á efri hæð hússins og fjallar hún m.a. um loftskeytaþáttinn, sem er í samræmi við sögu hússins sjálfs. Þessi sýning, sem gerð er í tilefni af því að í ár eru 100 ár liðin frá innleiðingu símans hér á landi, er í rauninni tvíþætt. Annars vegar er það sá hluti sýningarinnar sem er í Loftskeytastöðinni, þar sem lögð verður megináhersla á loftskeytasöguna, og hins vegar sá hluti sýningarinnar sem unninn er í samvinnu við Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og fjallar um sögu Landssímans.

Tækniminjasafn Austurlands hefur fengið mikið af munum og minjum frá Landssímanum gamla, sérstaklega þeim sem eiga uppruna sinn á Seyðisfirði. Vegna þessarar tvískiptu sýningar Þjóðminjasafnsins, í Reykjavík annars vegar og á Seyðisfirði hins vegar, verður staðið sameiginlega að kynningu, m.a. með gerð sameiginlegs kynningarefnis. Sýningin á Seyðisfirði verður að sjálfsögðu opin almenningi.

Ég tel það mjög jákvætt að Þjóðminjasafnið taki þannig upp öflugt samstarf við safn úti á landi og undirstriki þannig hlutverk og þýðingu sína fyrir landsbyggðina og er það mjög til eftirbreytni.

Þjóðminjasafninu er heimilt að breyta fyrirkomulaginu innan húss í Loftskeytastöðinni til að nýta húsnæðið betur og hefur m.a. verið ákveðið að samnýta það með Háskóla Íslands. Í framtíðinni verður efri hæð hússins fyrst og fremst nýtt til safnfræðslu og verður fyrirhuguð sýning notuð í því sambandi. Sýningin verður ekki opin á föstum sýningartíma heldur eftir samkomulagi en er fyrst og fremst hugsuð með þarfir skólabarna og safnfræðslu í huga. Neðri hæðina mun síðan Háskóli Íslands fá til afnota gegn leigu og mun Háskóli Íslands nota húsnæðið undir stofnun sína um sjálfbæra þróun.