132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fjarskiptasafn Landssímans.

429. mál
[13:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fjarskiptasaga Íslendinga er á meðal stærstu og merkustu þátta Íslandssögunnar alla síðustu öld, alveg frá því að Einar Benediktsson og þeir höfðingjar voru að bera þetta mál fram um aldamótin 1900. Þá sögu þarf að halda vel utan um burt séð frá, jafnframt og þrátt fyrir sölu fjarskipta- og póstfyrirtækja í eigu ríkisins til almennings, eða sem sagt einkavæðingu þessara fyrirtækja, sem ég held að hafi verið heillaskref — það er engin ástæða til að ríkið sé að standa í slíkum rekstri. En þrátt fyrir það þarf að halda vel utan um fjarskiptasöguna og Fjarskiptasafnið og svör menntamálaráðherra þóttu mér ekki gefa til kynna háleitar hugmyndir stjórnvalda um utanumhald um fjarskiptasöguna og Fjarskiptasafnið. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að halda fast utan um það og tryggja að fjarskiptasögu Íslendinga verði gerð góð og viðunandi skil innan Þjóðminjasafnsins og annars staðar. Það er mjög mikilvægt að bæði munir og safnsaga glatist ekki með neinum hætti.