132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[13:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn sem hv. 4. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður varpaði til mín um það hvort ég hyggist beita mér fyrir því að umhverfisvænum og orkusparandi búnaði verði komið fyrir í íslenskum fiskiskipum, sambærilegum þeim sem er í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni

Orkustjórnarbúnaðurinn frá fyrirtækinu Marorku ehf. sem verið er að koma fyrir í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni leitar leiða til að spara orku við þær aðgerðir sem verið er að framkvæma. Búnaðurinn gefur nákvæmar upplýsingar um olíunotkun á tonn fyrir hvert tonn af veiddum fiski miðað við mismunandi tegund af fiski, veiðisvæði eða hvaða veiðarfæri eru notuð. Þá verður hægt að sjá á þessum búnaði kostnað við veiðar á mismunandi svæðum með mismunandi veiðarfærum. Með þessum tölfræðilegu upplýsingum getur búnaðurinn bent á mögulegar leiðir við að spara olíunotkun við veiðar.

Marorka ehf. sem þróaði búnaðinn hefur fengið styrki til þróunar á honum frá AVS, sem er sjóður sem lýtur stjórn sjávarútvegsráðherra, og Tækniþróunarsjóði. Einnig hefur sjávarútvegsráðherra hvatt til þess að þessi búnaður verði þróaður áfram og notaður í fiskiskipum. Aftur á móti er það ekki á valdi ráðherra eða ráðuneytis að taka ákvarðanir fyrir hönd sjávarútvegsfyrirtækja um hvort þau setji slíkan búnað í fiskiskip. Það eru eigendur fiskiskipanna, sjávarútvegsfyrirtækjanna sem taka endanlega ákvörðun að sjálfsögðu í þessum efnum og hafa þá væntanlega hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi.

Það er augljóst að ef þetta er hagkvæmt frá sjónarhóli útgerðarinnar, eins og mjög margt bendir til, þá munu útgerðarmenn að sjálfsögðu grípa til þess að fjárfesta í þessum búnaði. Útgerðarmenn eru ákaflega meðvitaðir um þetta. Olíuverð hefur hækkað og er einn af þeim þungu kostnaðarliðum sem menn eru sífellt að leita leiða til að ná niður. Þess vegna er það augljóst að ef hér er um hagkvæman búnað að ræða munu þeir vitaskuld nota hann. Útgerðarmenn eru ekki þekktir fyrir að vera seinir til að fjárfesta í búnaði ef hann getur komið að gagni.

Sá sem hér stendur hefur líka notað mörg tækifæri til að hvetja í þessum efnum, vekja athygli á þessum búnaði og eins og fram kom hefur ráðuneytið stutt við bakið á þróun þessa búnaðar og veit ég að það hefur verið gert í mjög góðu samstarfi við eigendur fyrirtækisins Marorku sem að mínu mati hafa unnið þarna ákaflega gott verk.

Útgerðarmenn eru alltaf að leita leiða til sparnaðar, m.a. orkusparnaðar. Ég þekki af gamalli reynslu að í þeim efnum hafa menn horft til margra hluta. Það hafa verið búin til tæki, þó þau hafi ekki verið jafnþróuð og þetta tæki, sem hafa átt að stuðla að því að draga úr orkukostnaði. Menn fóru fyrir 15–20 árum í miklar aðgerðir á mjög mörgum togurum okkar, breyttu gírbúnaði, breyttu skrúfubúnaði og breyttu vélbúnaði skipanna til að reyna að draga úr orkukostnaði og þar með mengun og útblæstri. Allt er þetta gert til að reyna að draga úr sóknartengdum kostnaði og sú þróun sem við sjáum með minnkandi sóknartengdum kostnaði, svo sem eins og með sameiningu aflaheimilda eða veiðiréttinda, hefur auðvitað stuðlað að hinu sama.

Ég vil líka láta það koma hér fram að útgerðarmenn, skipstjórar og sjómenn eru að mínu mati mjög vakandi almennt talað gagnvart umhverfi sínu. Við þurfum ekki annað en líta yfir farinn veg til að sjá hvernig umgengni um borð í skipunum hefur gjörbreyst. Það var ekki þannig hér áður fyrr að menn kæmu með úrgang í land af þessum skipum. Það var miklu algengara að menn hentu ónýtum veiðarfærum fyrir borð. Við sjáum það einfaldlega á fjörum landsins hvernig þetta hefur verið að breytast. Við vitum að það er regla núna fremur en undantekning að menn komi með þennan úrgang að landi. Allt þetta segir okkur að útgerðarmenn og starfandi sjómenn, þar með taldir skipstjórnarmenn, eru mjög vakandi fyrir þessu.

Almennt talað tel ég eðlilegt að nota þróunarsjóði eins og sjóðinn um aukið virði sjávarfangs, AVS, til að reyna að hjálpa til við þróun á búnaði sem þessum sem þar að auki getur, eins og hv. þingmaður vakti athygli á, hugsanlega orðið að verðmætri útflutningsvöru. Þetta er dæmigerður hátækniiðnaður. Þetta er enn eitt dæmi um það sem ég hef talað um á undanförnum mánuðum, þ.e. að sjávarútvegur okkar er hinn dæmigerði þekkingariðnaður. Hann er mjög mikilvægur þekkingariðnaður. Það er einmitt á grundvelli hans og vegna nábýlisins við sjávarútveginn að til verða fyrirtæki á borð við Marorku. Auðvitað getum við nefnt mörg önnur fyrirtæki, Póls, 3X, Skagann og Marel svo ég taki dæmi af handahófi sem segir okkur hversu mikilvægt er að okkar sjávarútvegur geti starfað í góðu samstarfi við þau fyrirtæki sem eru að vinna í þessum efnum.

Aðalatriðið er að verkefnið er mjög mikilvægt og að ráðuneytið hefur stutt við bakið á því og hvatt menn til að gefa því gaum og athuga hvort ekki gæti verið til góðs að verði tekið upp í vaxandi mæli.