132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:17]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða mikilvægt málefni fyrir Suðurland. Þær tölur sem hæstv. samgönguráðherra hefur flutt eru tölur sem hver og einn getur séð á textavarpi sjónvarpsins á síðu 486 daglega og er mjög fróðlegt fyrir fólk að fylgjast með þeim tölulegu upplýsingum.

Það sem er kannski mikilvægast í umræðunni er að umferð á þessum vegi, Hellisheiðarvegi, er með allt öðrum hætti en á öðrum vegum, þ.e. að topparnir innan dagsins eru miklu stærri yfir sumarmánuðina og helgarnar en nokkurs staðar annars staðar. Þá fer umferðin upp í 13 þúsund bíla á sólarhring.

Það sem mér finnst vera mikilvægt er að við lítum fram á veginn. Það er gott að líta í baksýnisspeglana og fylgjast með því hvað gert hefur verið síðastliðin tíu ár í þessu og hver þróun hefur orðið en nú þurfum við að horfa fram á veginn og átta okkur á því um leið og við undirbúum samgönguáætlun til næstu tólf ára að sjá hvernig þróunin verður næstu árin.