132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sífellt er verið að sanna það í sölum Alþingis að meira þurfi að gera í vegamálum og víst sést það vel á áðurnefndum tölum að menn þurfa að gera betur en gert hefur verið. Mér finnst hins vegar hæstv. ráðherra ekki standa sig sérstaklega vel í þeim málum. Hann kemur í sali Alþingis og mælir fyrir niðurskurði í vegamálum upp á 3–4 milljarða á ári á sama tíma og hér flæða um peningar kannski erlendis frá upp á 170 milljarða inn í hagkerfið á einu ári. Til að draga úr þenslu kemur hæstv. samgönguráðherra með tillögur um að minnka framlög til vegamála. Þetta er ekki trúverðugt að standa svona að málum þegar okkur stórvantar eða sárvantar endurbætur í vegamálum, ekki bara í kringum höfuðborgarsvæðið heldur um allt land og sárlega á stöðum þar sem menn eru að fara halloka með sína byggð og þyrfti að taka á virkilega snarlega.