132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Suðurlandsvegur.

473. mál
[14:36]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka samgönguráðherra fyrir ágæt svör, bæði við þessari fyrirspurn og þeirri fyrri sem var hér áðan. Ég er ein af þeim sem fagna þeim vegabótum sem gerðar hafa verið á Hellisheiðinni. Það var þannig að þessar vegabætur voru ekki á samgönguáætlun. Þó gerðist það að ríkisstjórnin lagði 400 millj. kr. til að lagfæra þennan veg, bæði til að leggja þar 2+1 og ný mislæg gatnamót. Vegurinn er allur miklu öruggari en áður var.

Ég tel ekki ástæðu til þess að við séum að flytja þingsályktunartillögu um breikkun á veginum. Við munum, alla vega stjórnarþingmennirnir, koma því á áætlun sem verður tekin upp í næstu 12 ára vegáætlun og sem samgönguráðherra hefur svo sannarlega tekið jákvætt undir að gera. Aldrei nokkurn tíma hefur annað eins verið lagt til samgöngumála á þessu landi og verið hefur núna síðustu ár, aldrei nokkurn tíma. Það hafa orðið stórkostlegar framfarir öllum til hagsbóta.