132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um fyrirframgreiðslur námslána. Þetta er gamalt mál sem við höfum löngum rætt í þinginu. Ég vil heyra viðhorf hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur til málsins. Þegar ungt fólk hefur nám þarf það að taka bankalán fyrir námslánunum vegna þess að þau eru greidd eftir á. Það þarf að taka bankalán í nokkra mánuði, yfirdrátt eða hvernig sem því er háttað. Það getur auðvitað valdið ýmsum óþægindum ef eitthvað kemur upp á hjá þeim sem lánin taka.

Við höfum, nokkrir þingmenn með Björgvin G. Sigurðsson í broddi fylkingar, ítrekað lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem lagt er til að teknar verði upp fyrirframgreiðslur á námslánum. Það yrði gert til að koma í veg fyrir fjárhagserfiðleika sem nemendur geta lent í við upphaf skólaárs. Ef námsframvinda er ekki með eðlilegum hætti samkvæmt reglum um viðkomandi skóla þá stöðvast greiðsla námslána eins og staðan er nú. Þá geta viðkomandi einstaklingar lent í vandræðum með bankalán sem þeir hafa þurft að taka fyrir framfærslu sinni. Það er ábyrgðarmannakerfi á lánum lánasjóðsins og sjálfskuldarábyrgð. Lánasjóðurinn er bæði með belti og axlabönd þegar kemur að endurgreiðslum lánanna. Það er algert lykilatriði. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu þessu verði breytt þannig að ungt fólk sem er að hefja háskólagöngu þurfi ekki að leita á náðir bankanna til að komast af.

Ég vil nefna fleira í þessu samhengi, þ.e. að á Íslandi er því miður töluvert mikið af ungu fólki sem hefur einhverra hluta vegna annaðhvort lent í því að hreinlega verða gjaldþrota eða fengið á sig árangurslaust fjárnám. Því fólki er gert illmögulegt að hefja háskólanám til að byggja sig upp að nýju. Það fær ekki þessar tilslakanir frá bönkunum, þ.e. lánið sem þarf til að geta lifað samhliða námi. Þetta eru, hæstv. forseti, eins og fram kemur í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Valdimars L. Friðrikssonar um gjaldþrot ungs fólks, hvorki meira né minna en 240 einstaklingar á aldrinum 20–29 ára frá árinu 2000–2005 sem höfðu orðið gjaldþrota. Meira en 5.500 lentu auk þess í árangurslausu fjárnámi. Þar er um stóran hóp að ræða sem skoða þyrfti sérstaklega í þessu ljósi.