132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:49]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil á móti skora á hv. þingmann að gefa því fyrirkomulagi sem ég er hér að kynna í örstuttu máli tækifæri. Í þessum tillögum eru mikil tækifæri fólgin, með því að sameina kraftana. Ég er ekki að gera lítið úr atvinnuþróunarfélögum á svæðunum, svo sannarlega ekki, enda mundu þau tengjast umræddum þekkingarsetrum. Ég held að það sé óhætt að tala um það sem þekkingarsetur sem yrðu til á þessum stöðum á landsbyggðinni og mundu þau eflast mjög frá því sem nú er. Það er náttúrlega kominn vísir að þekkingarsetrum og meira en það á sumum þessara staða og með því að tengja atvinnuþróunina háskólunum og rannsóknum erum við að fara inn á nýjar brautir, sem er mjög í samræmi við það sem þær þjóðir eru að gera sem við berum okkur saman við.

Við megum ekki festa okkur í því sem er. Við verðum að horfa fram á veginn og hugsa: Hvernig getum við nýtt kraftana best? Það er það sem við höfum að leiðarljósi í þeirri vinnu sem nú fer fram í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.