132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:10]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fræða hv. þingmann um það að vaxtarsamningur á Eyjafjarðarsvæðinu nær til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Þar eiga sér stað mörg framfaraspor, t.d. í samgöngumálum, og síðan hafa þingmenn kjördæmisins m.a. lagt fram þingsályktunartillögu um að stofnsetja beri framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, sem er stórkostlegt tækifæri. Annað varðandi vaxtarsamningana, hv. þingmaður nefndi öflug fyrirtæki, en það er ekki síður mikilvægt fyrir veikari fyrirtæki að eiga samstarf og samvinnu við þessa sterku aðila til þess að byggja upp smá og meðalstór fyrirtæki sem eru gríðarlega mikilvæg á viðkomandi stöðum.

Hæstv. forseti. Ég kom fyrst og fremst upp áðan til að ganga á eftir því við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hver sé stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Ég nefndi það að hv. þm. Jóhann Ársælsson og hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tala út og suður í málefnum sjávarútvegsins. Það vill nú þannig til þegar við tölum um byggðamál að sjávarútvegsmál eru órjúfanlegur hluti af byggðamálum (Forseti hringir.) og eru undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar (Gripið fram í.) og því er það ekki líðandi, og það er eðlilegt að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hér í salnum ókyrrist, að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Alþingi skuli ekki hafa neina raunverulega stefnu í sjávarútvegsmálum. Það er miður.