132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[17:44]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu stutta andsvari langar mig til að spyrja hv. þm. Magnús Stefánsson út í skattkerfisbreytinguna. Hann ræddi hér um ástæður byggðaröskunar, sem ég get alveg tekið undir, þær eru margvíslegar, m.a. persónulegar, fólk er að elta börnin sín sem fara í nám o.s.frv. En hann nefndi líka stjórnvaldsaðgerðir sem hafa verið samþykktar hér á Alþingi.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þær aðgerðir þegar við lækkuðum tekjuskatt fyrirtækja úr 30% niður í 18% og hækkuðum tryggingagjald, sem hafði þær afleiðingar að skattar fyrirtækja í Reykjavík og á Reykjanesi stórlækkuðu, eða um 4,4 milljarða á meðan tryggingagjaldið hækkaði aðeins um 2,2 milljarða. Þannig að þeir græddu á þessu 2,2 milljarða, meðan atvinnufyrirtæki annars staðar á landinu töpuðu eiginlega á þessu, eins og ég hef nefnt hér. Hvað finnst hv. þingmanni um svona aðgerðir? Eru þær til þess að efla atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni sem græddu ekkert á þessari breytingu vegna þess að þau eru að borga allt annars konar skatta en tekjuskatt?