132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og afleiðingar hennar.

[11:31]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlýða hér á þingmenn stjórnarflokkanna ræða um stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli, þ.e. að hún leiki hér tveimur skjöldum. Eftir að hafa hlýtt á ræður bæði hæstv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem fannst hér í þingsalnum áðan, er alveg ljóst að ekki er um að ræða neina skýra stefnu hjá stjórnarflokkunum í þessum málum. Hér er verið að ræða um að skoða þessi mál. Út frá hverju? Jú, út frá Kyoto og þeim möguleikum sem við kunnum að hafa í þeim efnum. Út frá hagkerfinu. Hvort það sé pláss í hagkerfinu, hvort það sé rétt að setja svona stórframkvæmdir inn í hagkerfið. Út frá byggðasjónarmiðum og eins út frá náttúrusjónarmiðum. Ég sé ekki að í reynd sé verið að tala á annan veg en Samfylkingin hefur gert, auk þess sem við höfum lagt ríka áherslu á að vernda náttúruauðlindir. Það er hverjum manni ljóst að orkuþörf í heiminum verður miklum mun meiri þegar fram líða stundir og vel má vera að einhver mesta arðsemi okkar felist í því að geyma okkur að virkja allar þær auðlindir sem við getum virkjað. Ég fæ því ekki séð að mikill munur sé á stefnu Samfylkingarinnar og stjórnarflokkanna eins og stefna þeirra birtist í orðum hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra.

Ég held þó að það sé algjörlega nýtt, hæstv. forsætisráðherra hefur líklega komið sér á spjöld sögunnar og sennilega verða orð hans tekin fyrir í háskólanum, að til séu fjárfestingar sem engin áhætta er af. Sem engin áhætta er af, eins og hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) lýsti hér áðan og ég þori að fullyrða að þetta eiga menn eftir að rannsaka frekar.