132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[12:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar er til umræðu og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir því.

Eins og komið hefur fram felur frumvarpið í sér að afsala eignarréttindum á þessu landi og þessum vatnsréttindum til Landsvirkjunar. Þetta svæði er innan þjóðlendna og ég hefði talið að markmiðið með þjóðlendulögum hefði verið á sínum tíma, og að unnið væri að því, að skilgreina það land og þær náttúruauðlindir sem innan þjóðlendnanna féllu sem hlut ríkisins, hlut þjóðarinnar sem sameign og væru í sjálfu sér ekki til sölu. Hér er lagt til að þessum eignarrétti verði afsalað.

Ég segi það alveg hreint út að ég tel þetta ranga stefnu. Ég get tekið undir sjónarmið hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem fór áðan í gegnum það að náttúruauðlindir eigi að vera eign þjóðarinnar, ævarandi eign hennar. Hitt er svo annað mál hvort afmörkuðum sérgreindum nýtingarrétti sé ráðstafað til einhvers ákveðins tíma til skilgreindrar starfsemi eins og t.d. orkuöflunar eins og hér er verið að fjalla um. Þetta tel ég að eigi að vera hin algilda regla, hvort sem um er að ræða auðlindir í landi eins og vatnsréttindi eða hvort það er fiskveiðiauðlindin í sjónum svo að dæmi séu tekin. Það á aldrei að afsala eignarréttinum á því.

Ég geri mér þó grein fyrir því að þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, leggur mikið kapp á að einkavæða og selja og markaðsvæða þessi réttindi. Við höfum fyrir þinginu frumvarp til vatnalaga sem heimila þá að vatnslindin sem slík sé markaðsvara. Ég er þessu andvígur. Það er sitt hvað hvort um ákveðinn nýtingarrétt er að ræða sem er veittur með ákveðnum skilyrðum, en eignarhald á vatnsréttindunum tel ég alveg alranga stefnu.

Hæstv. forsætisráðherra kom inn á það í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að gera þetta til að forða hugsanlegum skaðabótakröfum af hálfu Landsvirkjunar þegar í ljós kom að eignin sem slík félli innan þjóðlendna og þess vegna hafi þurft að skýra stöðu málsins. Ég er sammála nauðsyn þess að skýra stöðu málsins. Þá hefði mér fundist eðlilegast að eignaraðilarnir að Landsvirkjun sem eru allir opinberir, ríkið fyrir hönd þjóðarinnar, Reykjavíkurborg fyrir hönd íbúa Reykjavíkur og Akureyri fyrir hönd Akureyrar — allt eru það almannafélög sem standa að baki þessari eign — ræddu saman um hvernig tekið yrði á þessum málum þannig að ekki truflaði rekstur Landsvirkjunar án þess að afsala sér varanlegum eignarréttindum eins og hér er lagt til.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á það líka hvernig hlutirnir væru ef þeir væru metnir inn í fyrirtækið og benti á að eignarréttindi hefðu ekki verið metin sem framlag inn í fyrirtækið af hálfu ríkisins og spurði hvort nú væri ætlunin að meta það sérstaklega. Virkjunarrétturinn og það að eignast vatnsréttindin hljóta að vera gríðarlega mikil eign en það hefur einmitt verið einn mesti veikleiki og galli í stefnu núverandi stjórnvalda í virkjunarmálum að meta fórnarkostnað auðlindarinnar til ráðstöfunar til virkjunar til núlls, meta náttúruna, vatnsréttindin, á núll inn í orkufyrirtækin. Síðan geta menn reiknað arðsemiskröfu á fjárfestinguna þegar menn eru búnir að skera af þennan fórnarkostnað sem lagður er fram við ráðstöfun á þessum auðlindum. Þetta sýnir hinn mikla veikleika sem er við stefnu þessarar ríkisstjórnar í virkjunarmálum að meta náttúruna á núll. Það virðist líka eiga að gera í þessu frumvarpi hér, að meta vatnsréttindin og land virkjunarlandsins á núll inn í þetta fyrirtæki, Landsvirkjun.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi umræða verði tekin áður en við samþykkjum það frumvarp sem hér er um að leggja eignarhald á vatni og landi Búrfellsvirkjunar verðlaust inn í Landsvirkjun. Skoðun mín er reyndar sú að þetta eigi ekki að gera, það eigi ekki að leggja eignarhaldið inn heldur fyrst og fremst nýtingarréttinn. Ég legg áherslu á, frú forseti, að það verði skoðað mjög vandlega í iðnaðarnefnd að við ráðstöfum ekki með þessum hætti eignarhaldi á náttúruauðlindum okkar eins og hér er lagt til.

Þetta mál er alveg óháð því hver afdrif eignarhalds á Landsvirkjun verða. Þetta lýtur fyrst og fremst að réttindum þjóðarinnar, réttindum framtíðarinnar til að eiga auðlindina vatn og selja hana ekki í hendur einstakra fyrirtækja. Hæstv. forsætisráðherra svaraði í andsvörum sem ég átti við hann áðan í engu spurningum mínum, heldur varði tíma sínum í að draga athyglina að öðrum atriðum sem honum voru greinilega mjög viðkvæm. (SigurjÞ: Talaði hann um Evrópusambandið?) Hann talaði nú ekki um Evrópusambandið, nei, frú forseti, en hann talaði um eignarhald á orkuveitunum og lýsti þar áhuga sínum fyrir hönd ríkisins til að komast yfir Landsvirkjun, að ná eignarhlutum sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, undir ríkið og það mundi gefa honum frjálsari hendur. Að sjálfsögðu mundi það gefa ríkinu frjálsari hendur til að ráðstafa þessu fyrirtæki eins og því mundi sýnast. (Gripið fram í.)

Málið er að í hugum okkar vinstri grænna eru orkufyrirtækin þjónustufyrirtæki sem eiga að hafa það markmið að skapa raforku, orku til einstaklinga, heimila og atvinnulífsins á sem hagkvæmustu verði, á sem jöfnustum kjörum. Á grundvelli þess byggjum við síðan upp samkeppnishæfa búsetu og atvinnulíf. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum ekki hrifin af afleiðingum nýjustu raforkulaga sem Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir. Nú síðast komu hörð mótmæli frá Alþýðusambandi Íslands sem mótmælti hinum gríðarlegu raforkuverðshækkunum sem komu í kjölfar hinna nýju raforkulaga, markaðsvæðingar raforkukerfisins. Ég hef áður lesið upp hörð mótmæli frá Samtökum atvinnulífsins við gríðarlegri hækkun raforkuverðs vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins. Við höfum vitnað í umsagnir einstakra byggðarlaga sem hafa orðið mjög hart úti í stórhækkuðu raforkuverði vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins sem hefur verið dregin áfram af Framsóknarflokknum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur meira að segja gortað af því. Ég held að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins séu að verða ein um að gorta af árangrinum í markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Það er í þessu ljósi sem við, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, bæði á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur höfum lagst gegn því að hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun yrði seldur. Það þjónar hvorki hagsmunum Reykvíkinga sem íbúum né annarra landsmanna (SigurjÞ: Og leyndinni í kringum …) að selja hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Með því að halda eignarhlutnum er það viss trygging fyrir því að Landsvirkjun fari ekki á markaðsvæðingarvagn þessarar ríkisstjórnar, ráðherra Framsóknarflokksins, því það eru engir hagsmunir Reykvíkinga (SigurjÞ: Við fáum ekki að vita það.) fólgnir í því að standa frammi fyrir stórhækkun raforkuverðs. Ég held að við ættum fyrst að ljúka þessum málum með markaðsvæðingu raforkukerfisins, raforkulögunum, reyna að draga til baka eitthvað af því mikla óhagræði og þeim miklu álögum sem það hefur leitt yfir íbúa landsins og atvinnufyrirtækin áður en við höldum áfram í markaðsvæðingunni.

Hæstv. forsætisráðherra fór einnig inn á að ekki stæði til að selja Landsvirkjun og vitnaði til þess að ég hefði sagt að hæstv. iðnaðarráðherra hefði látið að því liggja. Ég hef undir höndum útprentun af viðtali hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur frá 17. febrúar fyrir ári síðan og vil gjarnan vitna til þess, með leyfi forseta. Þar er verið að fjalla um viljayfirlýsingu sem iðnaðarráðherra og þáverandi fjármálaráðherra skrifuðu undir varðandi kaup á Landsvirkjun. Með leyfi forseta, fréttamaður spyr:

„En þessi viljayfirlýsing sem var undirrituð í dag, er þetta eins og talað er um fyrsta skref í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?“

Þá svarar Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra:

„Já, það eru uppi áform um það að breyta síðan þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008 og þá eru þau komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna. Og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag er ekki ólíklegt, og reyndar áform uppi um það, að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður það ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til að ríkið haldi eitt utan um það.“

Fréttamaður spyr:

„Sérðu fyrir þér hverjum verður boðið að kaupa hlut í þessu hlutafélagi sem þá verður stofnað um Landsvirkjun? Getur almenningur keypt eða verður þetta boðið út einhvern veginn öðruvísi?“

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra svarar:

„Við erum ekki komin svo langt. Þetta er svo langt frammi í framtíðinni en almennt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið að selja eignir sínar að þá hefur það verið gert allt mjög faglega, vil ég halda fram. Það hefur svo sem gengið ágætlega það sem við höfum einkavætt fram að þessu.“

Herra forseti. Hugur iðnaðarráðherra til framtíðar Landsvirkjunar leynir sér ekkert í þessu viðtali. Ég er ekkert að draga í efa að hæstv. forsætisráðherra meini það nú þegar hann stendur hér í ræðustól að ekki standi til að selja Landsvirkjun þó svo Sjálfstæðisflokkurinn hafi ályktað um það og verið með stöðugar yfirlýsingar um að það sé næsta skref. Ég dreg ekki í efa að forsætisráðherra meinar það sem hann segir núna. En það er eins og stundum hefur verið sagt: Menn kannski meina það um leið og þeir segja það.

Þegar Síminn var á sínum tíma hlutafélagavæddur lýsti þáverandi samgönguráðherra yfir með miklum svardögum að ekki stæði til að selja hann. Síminn var síðan seldur. Þetta er til að rifja upp hvað getur gerst. Hlutafélagavæðing Rariks, sem nú liggur fyrir frumvarp um frá ríkisstjórninni, er einmitt liður í einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkugeirans, og ég hef bent á hvaða afleiðingar það hefur þegar haft.

Ég tek á vissan hátt undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á. Orkufyrirtækin Rarik og Landsvirkjun eru byggð upp sem eign þjóðarinnar, eign íbúanna, eign notendanna, eign sveitarfélaganna. Þannig hefur þetta byggst upp. Ef nú á að fara að markaðsvæða þau og færa eignir fyrirtækjanna upp með þeim hætti, búa það undir markaðsvæðingu og jafnvel sölu. Þá líta hlutirnir allt öðruvísi út. Ég vil taka undir það að ég tel eðlilegt að þau sveitarfélög sem vilja t.d. leysa til sín hluti í Rarik eigi að fá að gera það. Ég minni á að bæði Norðurorka og Skagafjarðarveitur hafa lagt fram erindi og óskað eftir viðræðum á síðasta vetri við ríkisvaldið um að fá keypta eða leysta til sín hluti Rariks á viðkomandi svæðum. Því hefur ekki verið svarað og ekki hefur verið orðið við þeim óskum um viðræður. Ég tel að það eigi að gera það því ef heimamenn telja að þessu sé betur varið með þeim hætti á að hlusta á það.

Ég minni á að kaup Rariks á Rafveitu Sauðárkróks á sínum tíma voru mjög umdeild og margir Skagfirðingar eru enn þeirrar skoðunar að það hafi verið gríðarleg mistök að selja Rafveitu Sauðárkróks. Hún var þeim mikilvæg, bæði sem þjónustustofnun og hvati í atvinnulífinu. Ég get tekið mörg dæmi um það. Þess vegna finnst mér alveg einboðið að það eigi að svara óskum heimaaðila um að fá að kaupa til sín t.d. Rafveitu Sauðárkróks og hugsanlega eignir Rariks á þessu svæði og styrkja þar með og efla Skagafjarðarveitur sem eru sem betur fer enn þá í eigu sveitarfélagsins og eru þar í öflugu starfi.

Enn eru orð hæstv. forsætisráðherra á þann veg að vitna til þess með röngum hætti sem ég hef sagt um afstöðu Skagfirðinga til stóriðjumála og virkjana og til þess að fórna Jökulsánum. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að meiri hluti þeirra sem tóku afstöðu í því máli á síðasta vetri var því andvígur að fórna Jökulsánum undir virkjanir og ég vona að það standi enn. En ég ítreka, herra forseti, að ég tel að þetta frumvarp þurfi mjög gagngerrar skoðunar við áður en það kemur aftur til 2. umr.