132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:15]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er frumvarp til laga hjá hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann er að hækka gjöld á einstaklinga sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda. Frú forseti. Þetta er frumvarp til laga frá fimm ungum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem telja nauðsynlegt að minnka verulega tekjur ríkissjóðs af því að skrá fyrirtæki.

Það vill nú svo til að það er lagaskylda á fjármálaráðuneytinu að veita umsögn um öll stjórnarfrumvörp, hvað þau koma til með að kosta og hvaða tekjur þau geti haft í för með sér. Stundum er fjármálaráðuneytinu vorkunn þegar inn koma einhver vitlaus frumvörp frá ráðherrum annarra ráðuneyta sem engin leið er að gera sér grein fyrir hvað komi til með að kosta eða hvort einhverjar tekjur komi af. En þegar ráðuneytið sjálft leggur fram frumvarp eins og gert er hér — hæstv. fjármálaráðherra leggur fram frumvarp unnið af embættismönnum fjármálaráðuneytisins sem hafa þá lagaskyldu að láta fylgja umsögn um hvaða gjöld gætu falist í því og hvaða tekjur — er í raun ótrúlegt að horfa á umsögnina sem hér liggur fyrir. Og hæstv. ráðherra segir: Þessi gögn eru öll til. Þau eru öll til. Það er ekki hægt að láta þau fylgja hér inn í þingskjöl.

Það vill svo til, hæstv. ráðherra, að um lagaskyldu er að ræða hjá ráðuneyti hæstv. ráðherra. Öllum málum sem ráðherrar leggja hér fram skal fylgja umsögn um kostnaðaráhrif. Því hefði, ef þessar upplýsingar eru til, átt að fylgja ítarlegri kafli en nú gerir þar sem segði: Þetta er umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, og eftir að hafa farið í gegnum þetta má ætla að tekjur aukist svo og svo mikið eða gjöld aukist svo og svo mikið eða sparist. Svo einfalt er það, frú forseti, og þetta er lagaskylda hæstv. ráðherra.