132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:38]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók ekki eftir því að hv. þingmaður beindi til mín spurningu eða hefði athugasemdir við mitt mál. En ég vil hins vegar taka fram að þótt flutningabílunum hafi fjölgað jafnmikið og raun ber vitni þá hafa þeir líka á ýmsan hátt náð að bæta mjög umferðarmennsku sína, ef svo má segja. Þeir eru t.d. mjög duglegir við að gefa merki um hvenær óhætt sé að fara fram úr og hvenær ekki. Ég er nú búin að keyra í allmörg ár og þetta er breyting til batnaðar. Ég held að þeir viti einfaldlega að af þeim stafar hætta í umferðinni.

Slysum hefur sem betur fer ekki fjölgað af völdum flutningabíla þótt óhöppum, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði í ræðu sinni, hafi fjölgað. Ég held að ástæðurnar fyrir því að slysin eru ekki fleiri en raun ber vitni séu m.a. að bílstjórarnir á þeim bílum sinna hlutverki sínu vel að þessu leyti.

Ég ítreka að ég held að hættan af þessum bílum sé mjög mikil. En það er ekki bílstjórunum að kenna heldur vegakerfinu. Hættan er reyndar meiri á sumum tímum dagsins en öðrum. Þessir bílar eru meira á ferðinni á vissum tímum heldur en öðrum. Í gærkvöldi var ég t.d. á leiðinni upp í Bifröst. Þá voru bílarnir á ferðinni og þjóðvegirnir bókstaflega fullir af flutningabílum. Það er ekki geðslegt að keyra við slíkar aðstæður í rigningu og dimmu.