132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er kannski full ástæða til að binda það í lög að svona umsögn fylgi frumvörpum og setja einhverjar reglur um hvernig hún skuli unnin. Það virðist a.m.k. vera þannig að í fjármálaráðuneytinu fari menn ekki alltaf sömu leiðina þegar þeir fara yfir svona mál. Það er þá kannski rétt að minna á það að hæstv. forsætisráðherra sagði á viðskiptaþingi að svona kostnaðarmat ætti að liggja fyrir, vildi setja það í lög, skilst mér, ef það ætti við um atvinnulífið í landinu. Það er kannski þá ágreiningur í ríkisstjórninni um hvort þetta eigi að fara inn í lög eða ekki.

Ég segi þetta ekki að ástæðulausu. Það hefur hvað eftir annað komið fyrir að hér hafa komið umsagnir frá fjármálaráðuneytinu sem ekki eru voða trúverðugar. Það er eins og í lokin á umsögninni sé ævinlega þessi setning: Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á afkomu ríkisins verði það að lögum. Þetta stendur t.d. undir umsögn um frumvarp um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins sem gengur út á það að 660 millj. skuli lagðar inn í ríkissjóð af þeim fjármunum sem voru í þeim sjóði. Þeim sjóði átti að ráðstafa af stjórninni sem þar situr nú en með því að setja fjármunina inn í ríkissjóð aukast greinilega fjármunir ríkissjóðs um þetta. Samt er þetta lokaklásúlan í umsögninni, þ.e. að þetta hafi ekki áhrif á stöðu ríkissjóðs.

Ég verð að segja alveg eins og er að ef menn bera ekki meiri virðingu fyrir verkefninu en þetta, að þessi klásúla sé höfð í lokin, alveg sama um hvað er verið að tala, þarf auðvitað að fara yfir hvaða reglur eigi að viðhafa þegar menn fara yfir hvað hlutirnir kosta og gefa um það umsögn til Alþingis.