132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Íslensk matvæli eru dýrari en matvæli annars staðar. Svo var að heyra á máli frummælanda að það mætti rekja að mestu til innflutningshafta en ég vil leggja mikla áherslu á það í allri umræðu um matvælaverð að íslenskur landbúnaður skiptir verulega miklu máli. Við heyrum það skýrt í fréttum þessa dagana, t.d. kemur fuglaflensa niður í hverju landinu á fætur öðru. Fyrir nokkrum missirum herjaði kúariða á heimsbyggðina þannig að við megum ekki fórna þessum hagsmunum fyrir lægra matvælaverð um stundarsakir.

Einnig vil ég nefna að það þarf að fara yfir landbúnaðarkerfið. Þetta er miðstýrt kerfi sem þarf að taka til í. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur því miður stuðlað að því að gera kerfið dýrara, t.d. með því að gera slátrun fjár dýrari en hún þyrfti að vera með því að taka upp evrópskar reglur sem engin þörf var fyrir. Einnig má gagnrýna styrkjakerfið í mjólkuriðnaðinum, það má færa rök fyrir því að styrkirnir sem skattgreiðendur greiða renni út úr greininni í miklum mæli.

Ég vonast svo sannarlega til þess, frú forseti, að þessi nefndarskipun skili einhverju betra af sér, þessi nefnd sem hæstv. forsætisráðherra hleypti af stokkunum fyrir nokkrum mánuðum. Við höfum séð að markmið þeirra nefnda sem þessi ríkisstjórn hefur skipað hafa oft verið meira að drepa málum á dreif en að finna lausn á vandanum. Við sjáum t.d. þegar settar eru nefndir um fiskveiðistjórn, byggðamál, að ekkert kemur út úr þeim.

Ég er á því að neytendur eigi heimtingu á því að eitthvað komi út úr þessu nefndarstarfi, frú forseti.