132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[16:02]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hefur farið fram hér í dag um matvælaverð á Íslandi. Það hefur verið gagnrýnt af sumum þingmönnum, sérstaklega hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, að forsætisráðherra hafi skipað nefnd til þess að gera tillögur um hvernig megi standa að lækkun matvælaverðs hér á Íslandi. Það hefur jafnframt komið fram að margar skýrslur liggja fyrir. Velflestar þessara skýrslna koma með tillögur sem jafnvel stangast á þannig að það er hárrétt ákvörðun hjá hæstv. forsætisráðherra að skipa nefnd til þess að fara yfir þessar tillögur og koma með uppástungur um hvernig á að taka á þessu máli.

Í fyrri ræðu minni ræddi ég um hin ýmsu tæki sem stjórnvöld hafa til þess að hafa áhrif á lækkun matvælaverðs hér á landi. Að mínu mati eru veigamestu tækin þau sem fela í sér lækkun á tollum og vörugjöldum á matvörum og aðgerðir til þess að bregðast við fákeppni á markaði. Það er staðreynd að afnám tolla á grænmeti, sem var ákvörðun stjórnvalda árið 2002, leiddi til 15% lækkunar á grænmetisverði á þessum tegundum. Slíkar ákvarðanir eru á valdi stjórnvalda.

Fákeppni á matvörumarkaði er staðreynd. Það kallar á aukið eftirlit samkeppnisyfirvalda og almennings. Það er eftirtektarvert að á sama tíma og verð á mörgum vörutegundum hefur færst til samræmis við verð í öðrum löndum er matvælaverð stöðugt 40–50% hærra hér á landi en annars staðar.

Mörgum knýjandi spurningum er ósvarað. Við hljótum t.d. að spyrja okkur hvers vegna sterk staða krónunnar, fækkun milliliða, bein kaup smásala á vörum frá útlöndum, sterkari staða smásala gagnvart birgjum og hagkvæmni stærðarinnar með sameiningu matvörukeðja á síðustu árum hefur ekki skilað sér í lækkuðu matvælaverði. Mér sýnist óhjákvæmilegt að spyrja hvort samþjöppun á matvælamarkaði hafi unnið gegn hagsmunum neytenda. Við hljótum jafnframt að spyrja hvers vegna verðlag á vörum eins og korni, brauðvörum, sem ekki njóta tollverndar, er tugum prósenta hærra hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því að verð á sykri og gosi er svo miklu hærra hér á landi en annars staðar og hið sama á við um kaffi, te og kakó.

Að lokum vildi ég gjarnan fá að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort nefndin hafi einhver tímamörk.