132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. þessa máls vil ég lýsa því yfir að ég er nokkuð jákvæður fyrir þessu máli eins og það er sett hér upp og vona að það verði til góðs. Mér finnst hins vegar kannski skorta svolítið á að hæstv. ráðherra lýsi því hvernig hann hyggist ná fram betri rekstri, veita betri þjónustu ásamt því að ná fram sérstökum sparnaði og hagræðingu. Ef ég les þetta rétt á hagræðingin sem felst í sameiningunni fyrst og fremst að koma með sameiginlegri yfirstjórn og sameiningu stoðdeilda og sameiningu húsnæðis. Ég hefði viljað spyrja í þessu sambandi, hæstv. forseti, hvort ráðherrann hafi áætlanir um að efla þessa starfsemi úti á landsbyggðinni og hvort hann sjái fyrir sér að þá þurfi e.t.v. að ráða starfsmenn til þess að sinna því. Hvernig sér hann fyrir sér að þjónustan við landsmenn verði almennt bætt?

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það hefur oft skort nægileg rök þegar menn eru að tala um sameiningu og mér finnst einnig skorta á það í þessu máli að nógu vel sé gerð grein fyrir því hvernig menn sjá fyrir sér annars vegar bættan rekstur og jafnvel fjárhagslegan sparnað og hins vegar að þjónustan verði aukin o.s.frv. Í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir að þessu fylgi aukinn kostnaður, en ég held að það sé reynsla okkar flestra að því fylgi yfirleitt nokkur kostnaður að sameina þjónustustig og ég tala nú ekki um ef það á svo að reyna að veita betri þjónustu en var fyrir.

Ég hefði viljað heyra nánari útlistingar frá hæstv. ráðherra hér við lok 1. umr. á því hvað teldist sparast sérstaklega. Ég sé það sem hér er ritað í greinargerðina en ég sé ekki alveg samhengi í því miðað við að auka eigi starfsemina og efla hana og ekki að draga saman. Ég sé hér líka að starfsmönnum sem nú starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra verði boðið starf hjá nýrri stofnun. Ég get því ekki séð að það sé fyrirhugað að breyta mannahaldi nema þá til þess að auka þjónustuna enn frekar en nú er. Því ef eitthvað á að sparast með sameiningunni þá hlýtur markmiðið að vera að það eigi að nýtast til að veita betri þjónustu og mér heyrðist hæstv. ráðherra leggja málið þannig upp þegar hann mælti fyrir því. En ég hefði gjarnan viljað heyra nánari útlistun á hvernig eigi að ná því fram ef fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir því að þetta kosti neina sérstaka peninga.