132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég hlýði á ræðu hv. þingmanns kemst ég eiginlega mér til mikils harms að þeirri niðurstöðu að ég er sennilega í grundvallaratriðum ósammála hv. þingmanni um að það sé sjálfu sér eftirsóknarvert að skapa hér á Íslandi samfélag sem er í orkulegu tilliti sjálfbært eða sjálfu sér nógt. Ég held að ef hægt er að finna leiðir, eins og þá sem hér er verið að ræða um, til að búa til orku sem hægt er að flytja til annarra landa, orku sem er kannski ekki að öllu leyti hrein en er svo miklu hreinni en sú orka sem t.d. þróunarlöndin eru að búa til og nota í dag, þá held ég að það sé ákaflega þakkarvert. Ég hafna því eiginlega af grundvallarástæðum að hægt sé að tala um, þegar mengun sem tengist loftslagsbreytingum er annars vegar, að eitthvert eitt eyland sé einangrað í því tilviki og að hægt sé að líta á það sem heild. Í þessu tilliti verður að líta á heiminn allan sem heild, þetta er alþjóðlegt vandamál, og þær þjóðir sem hugsanlega, vegna sérstöðu sinnar, geta lagt af mörkum eiga að gera það. Það er hugsanlegt að sú tækni sem við ræðum hér geti leitt til þess að hægt sé að framleiða mikið af orku sem okkur verði hugsanlega með einhverjum hætti útbær og það verði framfarir sem leiða til þess að hægt sé að flytja hana líka. Ef svo er þá er Ísland kannski í hópi þriggja, fjögurra svæða, lítilla, á jarðkringlunni sem gætu gert þetta. Ef svo væri ættum við að sjálfsögðu er gera það. Hugsanlega er ég að misskilja hv. þingmann en þegar við skoðum þetta vandamál þá held ég að ekki sé hægt að tala um að Ísland eigi að vera sjálfbært samfélag í orkulegu tilliti í þeim skilningi að það eigi bara að búa til orku sem er því nógt, ef við getum gert (Forseti hringir.) annað í krafti tækninnar.