132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefði skipt um skoðun í seinni ræðu sinni. Mér heyrðist hann segja það í fyrri ræðunni að hann vildi fá frumvarp um framhaldsskóla sem fyrst inn í þingið. Ég get upplýst um að frumvarp er snertir framhaldsskólann kemur inn í þingið á vordögum en ég mun vinna það í samvinnu og samráði við kennaraforustuna. Það er alveg skýrt af minni hálfu að brýnt er að sú sátt haldist sem hefur náðst um samkomulagið og vinnufyrirkomulag við styttingu námstíma til stúdentsprófs, þ.e. að stytta það úr 14 árum í 13 ár. Ég mun vinna að þessu máli í samráði við kennaraforustuna, líkt og öðrum málum er snerta menntamál okkar Íslendinga, þannig að það sé alveg skýrt.

Mörg atriði er ánægjulegt að nefna í sambandi við samkomulagið sem náðist við Kennarasambandið en þó skiptir mestu að við vinnum á breiðum grundvelli. Mörg verkefni bíða sem við ætlum að fara saman í og ég fagna því sérstaklega. Ég fagna líka þeim vinsamlega tóni sem heyrst hefur í þingsalnum af hálfu stjórnarandstöðunnar, sem hefur að mínu mati hafið sig aðeins upp fyrir dægurmálaumræðuna og reynt að sjá stóru myndina, þ.e. að við ætlum að stytta námstíma til stúdentsprófs án þess að skerða námið. Okkur ber skylda til að fara vel yfir þær ábendingar og þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa í tengslum við áformin fram til þessa.