132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi er rétt að þakka hæstv. ráðherra sérstaklega þessa skýrslugerð og er það í fyrsta skipti sem við fáum slíkt plagg hér inn á Alþingi, afar mikilvægt plagg og á margan hátt mjög fróðlegt, þar sem m.a. er verið að bera saman sveitarstjórnarmál á Íslandi og hjá nágrannaþjóðum okkar, sem er afar mikilvægt. Sérstaka athygli vekur það hlutfall sem er á milli ríkis og sveitarfélaga í samneyslu. Það er algjörlega öfugt hjá okkur miðað við nágrannaþjóðirnar, sem bendir til þess að við þurfum að færa miklu fleiri verkefni til sveitarfélaganna. Hæstv. ráðherra minntist einmitt á að það væri hlutur sem þyrfti að skoða.

Það liggur líka ljóst fyrir þegar maður les skýrsluna hver vandinn er meðal sveitarfélaganna litið til framtíðar. Þau eru of lítil og veikburða mörg hver og vandanum er mjög misskipt. Vaxandi misskipting virðist vera á milli svæða. Ég vil því spyrja hæstv. félagsmálaráðherra í byrjun umræðunnar hver framtíðarsýn hæstv. ráðherra er, þrátt fyrir að hann treysti sér eðlilega ekki eftir þær atkvæðagreiðslur sem fram fóru að gera ákveðnar tillögur um að fækka (Forseti hringir.) sveitarfélögum. En hver er framtíðarsýn hæstv. ráðherra?