132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:10]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að leggja neitt slíkt til. Ég er einfaldlega að segja að við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar. Sveitarfélögin eru mismunandi að stærð og burðum. Þau hafa mismunandi tækifæri til að veita íbúunum þá þjónustu sem þeir gera kröfu til og lög kveða á um. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan er nú hafin endurskoðun á því regluverki sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar eftir. Ég vænti nokkurs af þeirri endurskoðun.

En ég vil ekki að mál mitt sé skilið svo, hæstv. forseti, að ég sé að kasta rýrð á hin minni sveitarfélög, eða ég sé að draga úr því að þau eiga vissulega við vanda að etja. Ég tel hins vegar algjörlega nauðsynlegt við þessa umræðu að horfa líka til framtíðar, horfa líka til styrkleika sveitarfélaganna. Horfa til tækifæranna. Því þau eru vissulega fyrir hendi eins og við höfum margoft séð, hæstv. forseti.