132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Kaupendur Búnaðarbankans.

[15:14]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að það sem vitnað er til og kom fram í fréttum í gær og haft eftir stundakennara við Háskóla Íslands er ekkert nýtt. Það er ekkert nýtt í þeirri frétt. Og að hv. þingmaður skuli nú bæta gráu ofan á svart við upphaf fundar á hv. Alþingi til að ætla að gera sig gildandi vegna þessa máls er í sjálfu sér mjög athyglisvert. En látum það nú vera, það er eins og það er.

En að hv. þingmaður skuli koma hér upp til að biðja mig að beina einhverju til Fjármálaeftirlitsins er frétt út af fyrir sig og sýnir að Samfylkingin hefur ekki enn þá áttað sig á því hvað er sjálfstæð eftirlitsstofnun. Þessi hv. þingmaður sem hér tók til máls og er aðaltalsmaður Samfylkingarinnar á sviði samkeppnismála (Gripið fram í.) ef ég man rétt umræðuna frá síðasta vori og væri hægt að fara ýmsum orðum um þá fáránlegu umræðu og hvernig hv. þingmaður talaði þá og væri svolítið skemmtilegt að rifja það upp sem þá var sagt. En við skulum láta það vera núna, ég held að það takist ekki í þessu stutta andsvari. En að koma hér og óska eftir því að viðskiptaráðherra beini einhverju til Fjármálaeftirlitsins er ekki í takt við nútímastjórnsýslu.