132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla sérfræðinga sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt rækilega á stjórnarfundi Tryggingastofnunar síðasta föstudag og þar lét ég það koma greinilega fram að skýrslan væri opinbert gagn og væri til opinberrar umræðu. Það er því misskilningur ef menn halda að einhver leynd hvíli á skýrslunni. Menn eiga að geta nálgast hana, hvort sem er hjá Tryggingastofnun eða í ráðuneytinu. Ég held að allir séu sammála um það, bæði stjórn Tryggingastofnunar og ráðherra, að það sé eðlilegt að skýrslan fari í opinbera umræðu. Þar eru dregnar fram staðreyndir um kerfið eins og það er, kerfi sem er mjög margbrotið og flókið, því er ekki að neita, og margvísleg sjónarmið að baki einstökum ákvörðunum sem teknar hafa verið í tímans rás. Það er því eðlilegt að taka kerfið til umræðu og endurskoðunar, eins og lagt er til í skýrslunni, og ég hvet fulltrúa alla stjórnmálaflokka til að gera það og hafa á því skoðanir hvernig þeir vilja breyta kerfinu. Það væri mjög fróðlegt að fá umræðu um það hvernig menn vilja hafa kerfið til framtíðar litið.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra eru ýmis sjónarmið sem að baki liggja umdeilanleg og umdeild og því eðlilegt að ágreiningur geti verið um einstök atriði í útfærslu þessara reglna eða tillagna um breytingar á þeim.

Það sem mér fannst athyglisverðast, virðulegi forseti, í því sem fram kom í skýrslunni umfram samandregnar staðreyndir eru fullyrðingar sérfræðinganna þess efnis að eftir bestu fáanlegu upplýsingum telja menn að notendagjöld geri lítið til að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið. Hins vegar sé kostnaður vegna mistaka og rangra ákvarðana heilbrigðisstarfsfólks og lækna allt að 30 sinnum hærri en sá kostnaður sem leiðir af röngum ákvörðunum sjúklinga. Ég held að það sé atriði sem menn ættu að skoða, virðulegi forseti.