132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls um störf þingsins vegna skýrslu sem sérfræðingar Tryggingastofnunar ríkisins hafa unnið um greiðsluþátttöku sjúklinga og hefur ekki birst opinberlega. Ég, eins og aðrir hv. þingmenn, kalla eftir því að þessi skýrsla verði af sérfræðingum Tryggingastofnunar ríkisins kynnt í heilbrigðis- og trygginganefnd hið fyrsta.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að reglur Tryggingastofnunar ríkisins eru mjög flóknar. Þær eru flokkaðar eftir sjúkdómum, eftir fötlun og eftir aldri og þær hafa verið settar á mismunandi tíma og á mismunandi forsendum þannig að kerfið í sjálfu sér er mjög flókið. En ég tel að greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni sé orðin ærin. Ef einföldun á greiðsluþátttöku sjúklinga eða greiðslu til sjúklinga hefur í för með sér að greiðsla einstaklinga hækki held ég að við þurfum að gera eins og hér hefur verið lagt til, að hver stjórnmálaflokkur fyrir sig leggist yfir forsendurnar og skoði hvort ábendingar sérfræðinganna séu réttmætar eða með hvaða hætti við viljum þá breyta og einfalda það kerfi sem er við lýði. Kerfið er það flókið að það er mjög líklegt að margir verði af þeim bótum, greiðslum og stuðningi sem þeir eiga rétt á.