132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:05]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 136/1997. Það er auðvitað hið besta mál að taka til gaumgæfilegrar athugunar að sjálfseignarstofnun á háskólastigi og einkareknum háskólum sé óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla. Hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, Kolbrún Halldórsdóttir, fór einmitt vel yfir það hvaða staða varð í raun og veru til þess að þetta frumvarp er lagt fram.

Það er alveg deginum ljósara að skólagjöld eru í eðli sínu andstæð þeirri jafnréttishugsjón sem við höfum haft að leiðarljósi í menntamálum þjóðarinnar. Nú hafa einkareknu skólarnir forskot á ríkisreknu skólana með því að innheimta skólagjöld af nemendum sínum en fá auk þess tekjur frá ríkinu til jafns við þær tekjur sem ríkisreknu skólarnir fá. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og hefur verið rætt mjög mikið á þingi. Grunnurinn að því er að háskólanám á Íslandi er í fjársvelti. Hæstv. menntamálaráðherra talar oft um að framlög til háskólanáms og menntunar hafi aukist mjög mikið á síðustu árum og í tíð þessarar ríkisstjórnar en gleymir hins vegar að segja frá því að háskólanemum hefur fjölgað miklu meira þannig að framlög á hvern nemanda hafa í raun og veru minnkað.

Dæmi um þetta er Háskólinn á Akureyri. Þaðan hafa jafnvel heyrst raddir um það að þau sjái sig knúin til að fara fram á það að innheimta skólagjöld sem væri auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Það er verið að svelta háskólana til þess að gera kröfur um að fá að taka skólagjöld af nemendum sínum. Nú þegar eru tekin eins konar skólagjöld af nemendum með innritunargjöldum sem eru óeðlilega há sé talað um kostnað við að innrita nemendurna. Þetta eru í raun dulbúin skólagjöld þó að þau séu ekki neitt í námunda við það sem skólagjöld yrðu ef þeim yrði komið á í ríkisskólum. Nemendum fjölgar en framlög til háskólanna aukast ekki að sama skapi.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að t.d. í Listaháskólanum sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins þurfa nemendur að greiða umtalsverð skólagjöld, tæplega 200 þús. á yfirstandandi skólaári, og það leiðir að því að nemandi þar þarf að punga út 600–800 þús. kr. fyrir BA-gráðu sína. Það er auðvitað stórfurðulegt.

Ef við viljum raunverulega jafnrétti til náms hlýtur það að vera krafa okkar að námið sé gjaldfrjálst, að allir eigi kost á því, að uppfylltum menntunarskilyrðum að sjálfsögðu, að mennta sig óháð fjárhag foreldra eða sínum eigin. Þetta ætti að vera algjörlega óumdeilanlegt. En þegar við bætist að jafnvel nám sem ekki er hægt að stunda í ríkisskólum er síðan í boði í einkaskólum og tekið gjald fyrir erum við komin á braut mismununar. Þess vegna legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt hið snarasta, að við förum að líta á menntamál sem grunnjafnréttismál og að við einbeitum okkur að því að styrkja háskólana í landinu og meta þann auð sem verið er að skapa í háskólunum fyrir allt þjóðfélagið. Það er eitthvað sem við ættum að líta til.