132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:15]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal misskilur eitthvað þetta frumvarp en eins og hann las upp hér þá er það alls ekki markmið frumvarpsins að þrengja að háskólastarfi á nokkurn hátt. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur einmitt lagt fram tillögur á þinginu um aukin framlög til háskólanna, t.d. Háskólans á Akureyri, en þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað fellt þær. Síðast í morgun mótmæltu nemendur við Háskólann á Akureyri sinnuleysi stjórnvalda, ríkisstjórnarflokkanna sérstaklega, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og áhugaleysi bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri sem svo illa vill til að einmitt er skipaður sömu flokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Við höfum hins vegar ekki legið á liði okkar við að benda á mikilvægi háskólanáms og að það beri að efla og þetta frumvarp hamlar auðvitað alls ekki gegn því. Það bendir bara á að ekki á að innheimta skólagjöld af námi sem ekki er í boði hjá ríkisreknum skólum. Ríkisreknu skólarnir eða einkaskólarnir eiga að taka þetta nám upp en þurfa hins vegar ekki að taka fyrir það skólagjöld. Í því felst að ríkisvaldið þarf að leggja aðeins meira á sig, veita aðeins meiri framlög til háskólamenntunar í landinu til að allir geti stundað nám á jafnréttisgrundvelli.