132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:18]
Hlusta

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem sérstaklega upp í ræðustólinn til að mótmæla orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar um dugleysi núverandi stjórnvalda í menntamálum, sérstaklega með það í huga að hv. þingmaður kemur úr Norðvesturkjördæmi því ég veit ekki betur, eins og hann nefndi sjálfur, að fyrir þremur árum hafi verið opnaður nýr framhaldsskóli í Grundarfirði. Það hefur verið mikil uppbygging. Ég held að hæstv. menntamálaráðherra hafi nýlega verið á Ísafirði þar sem hún skrifaði undir stóran samning um háskólasetur á Vestfjörðum. (Gripið fram í: Og iðnaðarráðherra.) Og iðnaðarráðherra.

Ég veit ekki betur en að fyrir dyrum standi mikil uppbygging á skóla sem hann þekkir mjög vel til, Hólaskóla, og er líka á vegum núverandi stjórnvalda. Ég á því mjög erfitt með að skilja málflutning hv. þingmanns. Það var nú ekki meira en þetta. Ég vildi fá hv. þingmann aftur upp í ræðustól svo hann gæti útskýrt betur hvað hægt væri að gera, sérstaklega í tengslum við þessa þingsályktunartillögu. Ef við sjáum fram á að opnaður verði framhaldsskóli á þessu svæði, þá held ég að væri gaman að sjá vinstri græna gera meira.