132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Atvinnuréttindi útlendinga.

62. mál
[17:26]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga á þskj. 62. Það verður að viðurkennast í upphafi máls míns að þegar komið var að því að ég færi að tala fyrir málinu áttaði ég mig á því að mér höfðu orðið á mistök í haust þegar við lögðum fram þessi mál. En eins og hæstv. forseti veit eru þetta mál sem lögð voru fram í þingbyrjun núna í haust. Hér er um að ræða mál sem talað hefur verið fyrir áður. Á síðasta þingi talaði ég fyrir því ásamt með öðru frumvarpi sem fylgir þessu máli, þ.e. það skarast við þetta mál að hluta til. Það frumvarp varðaði breytingu á lögum um útlendinga. Bæði þessi mál voru send út til umsagnar á síðasta þingi og margar umsagnir bárust.

Við málið sem varðaði breytingu á lögum um útlendinga komu fram nokkuð flóknar tillögur um breytingar á því máli. Ég ákvað að fara í þá vinnu að breyta því máli þannig að ég tæki mið af þeim umsögnum sem borist höfðu. En einhvers staðar í pípunum hefur málið fest og aldrei verið lagt fram. Það fylgifrumvarp sem talað er um í þessari greinargerð að sé til staðar, er það ekki enn. En ég segi hv. þingheimi og hæstv. forseta það úr þessum ræðustóli að ég mun nú klára þá vinnu sem eftir er við síðara málið þannig að það komi þá alla vega fram á þingskjali á þessu þingi og geri þá ráð fyrir að það verði lagt fram eftir helgina þó svo ekki náist að mæla fyrir því.

Í því ljósi verður að skoða þá ræðu sem ég kem til með að flytja, því að frumvörp þessi varða tengda þætti eins og ég segi og eru hálfgerð systurfrumvörp og erfitt að leiðir skilji á milli þeirra.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir tilbúið á þskj. 62 varðar breytingar á réttindum útlendinga. Það varðar þann rétt þeirra að stunda atvinnu á Íslandi. En eins og málum er háttað í dag er það svo að það er ekki útlendingurinn sjálfur sem fær hið tímabundna atvinnuleyfi heldur er það veitt atvinnurekandanum sem ræður útlendinginn til starfa. Það er mat flutningsmanna að hér sé um að ræða einhvers konar vistarband sem lagt er á útlendinginn eða átthagafjötra. Í okkar huga samræmist það sannarlega ekki mannréttindahugsun nútímans.

Ég ætla ekki að lesa alla greinargerðina með málinu en vil geta þess að sá þáttur málsins hefur fengið mjög jákvæðar undirtektir þeirra sem um þessi mál hafa fjallað. Þær stofnanir og félagasamtök sem hafa sent okkur umsagnir á síðasta þingi taka afar vel í þessa hugmynd sem hér er reifuð og kemur jafnvel fram hjá sumum umsagnaraðilum að það séu ákveðnir þættir í lögum um útlendinga sem jaðri við að setji höft á einstaklingsfrelsi þeirra og þetta er eitt af þeim ákvæðum sem slíkt er sagt um.

Mig langar að vitna stuttlega í umsögn sem barst frá stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna, þar sem fjallað er um þá reglu að vinnuveitendur séu handhafar atvinnuréttinda erlendra starfsmanna en ekki útlendingarnir sjálfir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Dæmin sýna að sú regla að vinnuveitendur séu handhafar atvinnuréttinda erlendra starfsmanna í landinu getur haft vafasamar afleiðingar. Hún færir atvinnurekanda öll völd yfir starfsmönnum og gefur óvönduðum aðilum í þeirra hópi færi á að ganga á rétt starfsmannanna. Starfsmennirnir, sem oftast hafa litla kunnáttu í íslensku, hafa mjög takmarkaða möguleika á að verja sig, t.d. í launa- og kjaramálum. Maldi þeir í móinn eiga þeir á hættu að missa atvinnuréttindi og dvalarleyfi.“

Þar með segja Samtök kvenna af erlendum uppruna að málið sé þeim að skapi enda vilji þær tryggja jafnrétti fyrir lögum eins og kveðið er á um í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með henni stuðlum við að því, eins og hæstv. forseti veit og allur þingheimur, að allir njóti verndar gegn mismunun og að fólk njóti félagslegs öryggis í anda t.d. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga taki alvarlega þær umsagnir sem fylgdu þessum málum í fyrra, þar sem ótal aðilar hafa haft það að leiðarljósi að til að auka réttindi eða tryggja grundvallarmannréttindi útlendinga og vernda þá gegn mismunun séu lagaákvæði á borð við þetta úrelt og veruleg þörf á því að breyta þeim.

Það eru raunar aðrir þættir en atvinnuleyfið sem þetta frumvarp fjallar um því að hér er líka fjallað um breytingartillögu á 11. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga, en sú breytingartillaga hefur þann tilgang að taka á vandamálum sem hafa komið upp í tengslum við það þegar útlendingar, fyrst og fremst konur, hafa komið til landsins og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sambúðar eða samvistar við íslenskan ríkisborgara. Sú breyting sem flutningsmenn leggja til með þessari grein veitir heimild til að víkja frá skilyrðum um tímalengd hjúskapar, sambúðar eða samvistar og lögheimilis ef skilnað má rekja til ofbeldis maka útlendingsins. Eins og kemur fram í greinargerðinni eru allt of mörg dæmi um það að erlendar konur hafi sætt ofbeldi í hjónabandi og komi til skilnaðar og þær hafa ekki uppfyllt tímaskilyrðin sem greint er frá í lögunum þá eru engin önnur úrræði í kerfinu en þau að vísa konunum úr landi. Með þeim hætti eru þessar konur jafnvel skildar frá börnum sínum og fleiri alvarlegar afleiðingar má nefna.

Samtök kvenna af erlendum uppruna segja um þetta atriði frumvarpsins, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

„Konur sem giftar eru íslenskum ríkisborgurum eða útlendingum með dvalarleyfi hér á landi búa oft við óviðunandi aðstöðu þegar upp koma vandamál í hjónaböndum þeirra. Þær eiga á hættu að verða sendar úr landi ef þær slíta samvistum við eiginmennina. Þær gætu, miðað við gildandi reglur, jafnvel þurft að fara frá börnum sínum undir þessum kringumstæðum. Varla er forsvaranlegt að slíkum einstaklingum sé synjað um áframhaldandi dvalarleyfi í landinu enda á mannréttindasáttmáli Evrópu að tryggja einstaklingum rétt til að njóta samvista við börn sín. Vafasamt er að þessar konur búi sem stendur við lágmarksréttindi. Taka þarf tillit til þess að kona sem skilur við eiginmann sinn vegna ofbeldis er oft og tíðum án atvinnu á þeim tímamótum og getur þurft að leita um stundarsakir til félagsþjónustu eftir framfærslu, sem aftur getur komið í veg fyrir að hún fái áframhaldandi dvalarleyfi samkvæmt gildandi lögum.“

Þá erum við komin að öðrum þætti þessa máls, þ.e. þeim þætti sem fólginn er í hinu frumvarpinu sem ég kem til með að leggja fram hér á þinginu eftir helgina, en það varðar heimild eða rétt til að veita þessum konum dvalarleyfi þó að þær hafi ekki uppfyllt þessi skilyrði um tíma.

Síðan eru aðrir þættir þessara mála. Við leggjum það til í þessum frumvörpum að réttindi erlendra ungmenna verði tryggð við 18 ára aldur eftir að hafa dvalið í landinu sem nánustu aðstandendur Íslendinga eða útlendinga með óbundin dvalarleyfi. Réttindi þessara ungmenna eru í dag takmörkuð og breytast þegar unga fólkið nær 18 ára aldri því að þá verður þetta unga fólk að sýna fram á sjálfstæða framfærslu ef það hefur dvalið í landinu sem nánustu aðstandendur Íslendinga eða útlendinga sem hafa óbundin dvalarleyfi. Við gerum ráð fyrir að þetta þurfi að breytast til þess að réttur þessara ungmenna sé tryggður því að annars kann þetta t.d. að skerða möguleika þeirra til skólagöngu og hrekja þau út á vinnumarkaðinn svo að þau geti geti uppfyllt kröfu laganna og sýnt fram á sjálfstæða framfærslu.

Þau þrjú atriði sem ég nú hef nefnt eru afar þýðingarmikil, sérstaklega þegar þeir mannréttindasáttmálar sem við höfum undirgengist eru skoðaðir. Þar get ég nefnt sérstaklega Peking-áætlun Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að fara eftir.

Í henni segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu beita sér fyrir setningu laga sem kveða á um útrýmingu ofbeldis gegn konum, framfylgja lögum og endurskoða þau reglulega auk þess að gera á þeim úttekt til þess að tryggja að þau hafi tilætluð áhrif.“

Síðar í 124. gr. Peking-áætlunar Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna segir:

„Enn fremur skal grípa til aðgerða til að tryggja vernd þeirra kvenna sem sæta ofbeldi, tryggja þeim aðgang að sanngjörnum og skilvirkum úrræðum, m.a. rétt til skaðabóta auk aðhlynningar.“

Þessi réttindi kvenna af erlendum uppruna sem þurfa að yfirgefa maka sinn vegna ofbeldis eru ekki tryggð þannig að það er nauðsynlegt að taka þessi ákvæði laganna til gagngerrar skoðunar og eftir að málin voru lögð fram í fyrra höfum við fengið mjög mikið af afar kraftmiklum umsögnum sem mæla með því að þær leiðir sem hér eru lagðar til verði farnar. Ég tel einboðið að þessi mál séu þeirrar náttúru og þess eðlis að það þurfi að grípa í taumana, grípa til aðgerða eins og hér er fyrirskrifað sem allra, allra fyrst. Meðan við gerum það ekki erum við að brjóta mannréttindi á fólki sem gistir okkar ágæta land. Slíkt getum við ekki látið viðgangast til lengdar. Hér er forskriftin að því hvernig á að breyta lögunum og það þarf að gera það hratt.

Hæstv. forseti. Ég vona sannarlega að þessi mál geti gengið hér í gegnum þingið áður en farið verður í sumarleyfi því það er ekki forsvaranlegt að við látum þessi mannréttindabrot viðgangast í landi okkar eitt ár til.