132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Atvinnuréttindi útlendinga.

62. mál
[17:37]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggjum þetta fram.

Þetta er afar mikilvægt mál og það kom reyndar fram hjá Einari Skúlasyni, framkvæmdastjóra Alþjóðahússins, í pallborðsumræðum um málefni útlendinga, sem við efndum til á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir rúmlega tveimur árum, að atvinnuréttindi útlendinga, sem eru nú veitt atvinnurekanda, eru eitt af brýnustu málum sem þarf að breyta í sambandi við réttarstöðu útlendinga hér á landi. Það ætti því að vera forgangsverkefni að koma þessu frumvarpi í gegn.

Hv. frummælandi, Kolbrún Halldórsdóttir, fór einmitt ítarlega í gegnum þetta og þær jákvæðu umsagnir sem hafa komið fram. Það var athyglisvert að á ráðstefnu sem Stígamót, Kvennaathvarfið, Félagsþjónustan í Reykjavík og Rauði kross Íslands ásamt Alþjóðahúsinu stóðu fyrir fyrir um ári, sem hét Skuggahliðar nútímafólksflutninga, var sérstaklega fjallað um erlendar konur í sambúð með innlendum körlum og þar komu ýmsar sláandi tölur fram. Þar kom t.d. fram að um 14% kvenna sem leita til Samtaka um kvennaathvarf og Stígamóta eru konur af erlendum uppruna, en þær eru aðeins 3,75% af konum búsettum á Íslandi. Þetta andlega ofbeldi, sem eiginmenn geta oft beitt erlendar konur sínar, á ekki að viðgangast og íslensk löggjöf á ekki að styðja það að slíku ofbeldi sé viðhaldið.

Aðdraganda málþingsins má rekja til svokallaðs Daphne-verkefnis sem styrkt er af ESB og fjögur lönd taka þátt í því, það eru Noregur, Danmörk, Þýskaland og Ísland. Grunnurinn að þessu verkefni er samstarf kvennaathvarfa. Starfsmenn kvennaathvarfa í Noregi tóku eftir endurteknum komum kvenna frá sama heimilisfanginu. Það var kannað nánar og í ljós kom það mynstur hjá ákveðnum körlum að flytja inn konur, misnota þær og skila þeim síðan í athvörfin aftur, og hlutfall erlendra kenna í kvennaathvörfum á Norðurlöndum er hátt miðað við hlutfall innflytjenda og Ísland er þar engin undantekning eins og ég nefndi áðan. Réttarstaða erlendra kvenna sem skilja við íslenska eiginmenn sem beita þær ofbeldi er ekki nægilega skýr. Hópnum þótti líka í öðru lagi að það þyrfti að efla upplýsingagjöf til kvennanna um raunverulega réttarstöðu þeirra.

Á ráðstefnunni kom fram að réttarstaða erlendra kvenna, sem sætt hafa ofbeldi eiginmanns eða sambýlings, er afar óljós og gjarnan notuð sem tæki til að beita andlegu ofbeldi með eða án hins líkamlega. Á ráðstefnunni kom í ljós að stjórnvöld sem fjalla um dvalarleyfi taka tillit til þess ef umsækjandi hefur orðið fyrir ofbeldi og það er auðvitað grundvallaratriði að þessi réttarstaða sé skýrð. Þetta frumvarp er einn liður í því. Það er líka grundvallaratriði að atvinnuleyfi sé tengt persónum en ekki vinnuveitanda. Þess vegna er þessi tillaga gerð um leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til starfa hér á landi og tímabundin atvinnuleyfi sem veitt eru útlendingi til að ráða sig til starfa hér á landi í tiltekinni starfsgrein.

Ég vona að þetta mál fái skjóta framgöngu hér í þinginu þannig að hægt verði að afgreiða það sem lög frá Alþingi fyrir vorið.