132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:20]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem síðasti hv. ræðumaður, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sagði áðan, það ber að fjalla um þessa skýrslu Fitch Ratings af varkárni og alvöru. Vissulega verður ekkert horft fram hjá þeim ábendingum sem þar koma fram. Ég verð að segja að það er ánægjulegt hversu margir hv. þingmenn hafa hér í dag tekið undir það að það verði hafa stjórn á ríkisfjármálunum. Það er athyglisvert að heyra þetta frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem flesta daga koma hér upp hver á fætur öðrum og krefjast aukinna ríkisútgjalda til hinna og þessara málaflokka. Fitch Ratings leggur mikla áherslu á þetta og hið sama hafa greiningardeildir gert, Seðlabankinn líka. Það er mikilvægt ef hér er að nást samstaða um að stemma verði stigu við aukningu ríkisútgjalda. En þá verða hv. þingmenn líka að gæta sín á því að koma hér ekki daginn út og daginn inn sífellt með nýjar tillögur um aukningu ríkisútgjalda til hinna og þessara málaflokka. Við vitum að það er mikill hiti í hagkerfinu og við verðum líka að velta fyrir okkur hvernig hagkerfið er undir það búið að takast á við þetta. Þá verðum við að hafa í huga að hagkerfið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, miklum breytingum sem gera það að verkum að það er hæfara til að takast á við þessa nýju stöðu en áður var.

Við höfum á undanförnum dögum séð fréttir sem reyndar hafa ekki vakið mikla athygli en hafa samt skipt máli um mat erlendra aðila á samkeppnishæfni hagkerfisins. OECD birti í síðustu viku niðurstöðu um að Ísland væri í 6. sæti yfir ríkustu lönd heims, Forbes segir að Ísland sé 3. vinsamlegasta landið fyrir erlenda fjárfesta, Wall Street Journal listar Ísland í 5. sæti (Forseti hringir.) yfir þau lönd þar sem mest viðskiptafrelsi ríkir. Viðskiptaháskólinn IMD í Sviss og World Economic Forum (Forseti hringir.) telja Ísland með 5. og 7. samkeppnishæfasta hagkerfi heims. (Forseti hringir.) Það skiptir máli í þessu sambandi (Forseti hringir.) vegna þess að það gerir okkur (Forseti hringir.) hæfari til að takast á við þessar breyttu aðstæður.