132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það sem ég sagði um að þetta kæmi á óvart var vegna þess að fyrir þremur vikum fengum við staðfestingu á bæði mati og horfum frá öðru fyrirtæki sem er fyrirtækið Moody's. Ég fagna því hins vegar hvað það kemur skýrt fram hjá mörgum ræðumönnum, sérstaklega þingmönnum Samfylkingarinnar, að það eigi að fara af aðgát og varfærni í þessa umræðu vegna þess að markaðir eru auðvitað viðkvæmir um þessar mundir. Fagna ég sérstaklega því sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þar sem hann nefndi hlut sveitarfélaganna í hagstjórninni.

Það sem ég vil benda sérstaklega á er það að staða ríkissjóðs er ekki gagnrýnd í þessari skýrslu, heldur einmitt talað um að hún sé að styrkjast. Staða bankanna er heldur ekki gagnrýnd, sagt að hún sé sterk. En útgjaldaaukningin og þar með skuldasöfnun, bæði fyrirtækja og einstaklinga því tengd, er gagnrýnd og það að ríkið hafi ekki hamlað nægjanlega á móti þessari þróun. Þar er og getur verið meiningarmunur á. Stóriðjustefnan er alls ekki gagnrýnd, það er langt því frá. (Gripið fram í: Ríkis…)

Síðan varðandi viðbrögð markaðarins eru þau, a.m.k. enn sem komið er, ekki meiri en svo að þau samræmast þeim spám sem uppi hafa verið um það hvernig gengi gjaldmiðla mundi þróast á undangengnum og yfirstandandi missirum. En við eigum auðvitað eftir að sjá enn betur hvernig markaðurinn bregst við. (Gripið fram í.)

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar, við stöndum auðvitað við langtímastefnu okkar í ríkisfjármálum sem er mjög varfærin. Hins vegar heyrist mér á sumum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir vilji fara í mikinn niðurskurð og skattahækkanir. Ég held hins vegar að farsælast sé að við höldum okkur við það að reyna að auka hagvöxtinn til lengri tíma litið og það gerum við með því að halda m.a. áfram að hvetja til þess að erlendir aðilar fjárfesti hér í álverum.

Ég er ánægður að heyra að hv. þm. Kristján Möller hefur ekki tapað húmornum og ég er þeirrar skoðunar að Fitch kunni að reikna og kannski hefur hv. þingmaður líka (Forseti hringir.) tekið sig á reikningi.