132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og þær umræður sem hafa verið um það. Ég endurtek að ég tel nauðsynlegt að málefni langveikra barna séu ætíð í skoðun og það felur í sér að skoða hvaða aðstæður foreldrar þeirra hafa. Ég held að nauðsynlegt sé að komast hjá því að mikil mismunun sé í þeim efnum en jafnframt vil ég benda á að geysilega mörg skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að bæta aðstöðu foreldra langveikra barna og barnanna sjálfra og er það vel. Einnig hefur verið komið upp heimili fyrir langveik börn í Kópavogi sem heitir Rjóður og ég opnaði á sínum tíma við mikinn fögnuð en það var í samstarfi við einkaaðila sem það var gert.

Það skref sem verið er að stíga núna er á vegum félagsmálaráðuneytisins en ég er ekki sammála því að það sé einskis virði. Það er skref á leiðinni en ég er alveg reiðubúinn að skoða jafnréttið innan þess hóps sem er svo ólánssamur að eiga við þessa erfiðleika að stríða. Ég held að okkur greini ekkert á í því efni.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir umræðuna og þær ábendingar sem hér hafa komið fram.