132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:53]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller um að það er margvíslegur vandi hjá Háskólanum á Akureyri og þess vegna er yfirlýsing menntamálaráðherra sem hér kom fram mjög góð og nauðsynlegt að heyra hana, um hið góða samstarf, sem við þingmenn kjördæmisins vissum auðvitað af, við yfirstjórnendur háskólans um það hvernig eigi að leysa vanda Háskólans á Akureyri til framtíðar. Það skiptir auðvitað máli fyrir nemendur Háskólans á Akureyri að heildarplönin liggi fyrir, menn viti hver framtíðarstefnan er og þess vegna skiptir það meginmáli að þessi vinna, sem er grundvallarvinna, fari fram núna.

Við 2. umr. fjárlaga var auðvitað ljóst að rannsóknarhúsið á Akureyri væri háskólanum dýrt. Það komu hins vegar fram mjög margvíslegar tölur um það hvernig þessi vandi væri til kominn og hvernig aðrar stofnanir kæmu undan þessu. Yfirlýsing fjármálaráðherra við fjárlagaumræðu skiptir auðvitað mjög miklu máli, en hann gaf þá yfirlýsingu við 3. umr. fjárlaga að það yrði tekið á þessum vanda. En það þarf auðvitað að liggja fyrir þegar það er gert hver vandinn er.

Það sem skiptir hér meginmáli er að Háskólinn á Akureyri verði áfram sterk stofnun, hún verði alþjóðlega samkeppnishæf stofnun og við heyrum á þeim plönum sem rektor Háskólans á Akureyri kynnti fyrir okkur þingmönnum í haust að þar er greinilega verið að vinna að mjög metnaðarfullum markmiðum og ekkert sem gerir ráð fyrir öðru en við munum sjá þessa stofnun vaxa sem skiptir auðvitað gífurlega miklu máli í byggðaumræðu landsins.