132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:38]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil það raunar svo að þessi ályktun vestnorræna ráðsins hafi verið samþykkt af því að engin þessara þriggja þjóða sá það fyrir eða hugsaði sér að ganga í Evrópusambandið í náinni framtíð þannig að hv. þingmaður snýr þessu alveg á haus.

En hitt þykir mér verra ef svo er komið fyrir hv. þingmanni að hann metur mál, hvort þau eru góð eða ill, eftir því hvort hann telur líklegt að þau stuðli að því að við getum ekki lengur verið sjálfstæð þjóð. Það þykir mér verra ef hans mat er það að þá sé það mál betra ef það ýtir undir það að við getum ekki haldið áfram að vera á okkar róli utan við Evrópusambandið. Mælistokkur minn á gott og illt er ekki sá, hvort það kemur vel eða illa við Evrópusambandið.