132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:22]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Kristján L. Möller er sammála okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmönnum Frjálslynda flokksins í þessu máli og hv. þm. Össur Skarphéðinsson líka. Ég ætla að vona að það gildi þá um allan þingflokk Samfylkingarinnar en það er því miður þannig að maður veit ekki alltaf hvar maður hefur hluta af þeim þingflokki. (Gripið fram í: … stór flokkur …) Já, þetta er voðastór þingflokkur og margar skoðanir uppi þar. En ég vona að hér sé kominn samhljómur fyrir því að stjórnarandstaðan öll geti sameinast um þetta og það verði, svo maður líti til framtíðar, takmark stjórnarandstöðunnar að fella ríkisstjórnina og taka við á næsta ári að loknum kosningum. Ég vona að þingmenn Samfylkingarinnar geti þá sameinast okkur í því að stefna að því vegna þess að það er eitt af því sem klikkaði fyrir síðustu kosningar, því miður. Fyrst þegar við komumst í ríkisstjórn getum við komið góðum málum eins og þessum áfram og kannski er þetta eitt af þeim málum sem við getum sameinast um, frú forseti.