132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Heimildir lögreglu til að leita uppi barnaníðinga.

[11:41]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hlusta á þessa umræðu, sérstaklega í ljósi þess samhengis sem við ættum að hafa í huga þegar við ræðum um málefni lögreglunnar. Eins og menn vita hefur Samfylkingin, og reyndar stjórnarandstaðan meira eða minna öll, talað gegn nýrri greiningardeild hjá lögreglunni sem á að geta beitt m.a. óhefðbundnum aðferðum vegna þess að heimurinn er að verða flóknari. Glæpir eru þannig í dag að menn þurfa virkilega að hafa sig alla við til að hugsa út hvernig hægt er að sporna við þeim. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér þykir málflutningur hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar minna mig svolítið á vindhana að þessu leyti, að vera á móti greiningardeildum einn daginn en tala svo um óhefðbundnar aðferðir við að tæla fram glæpi. Þegar ég segi þetta er ég alls ekki að verja þá sem stunda glæpi. Alls ekki. En menn verða að líta á samhengi hlutanna. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að lögreglan setji upp greiningardeild.

Varðandi tálbeiturnar tel ég að hér sé um hárfína línu að ræða. Hve langt á að ganga í að beita tálbeitum? Það er alveg ljóst eins og þetta er núna að ekki má lokka fram glæp. Það má ekki sem sagt stuðla að glæp. Lögreglan má það ekki. Ef glæpur er hins vegar byrjaður, undirbúningur hans, má nota tálbeitu til að komast að hinu sanna. Þetta er með svipuðum hætti annars staðar á Norðurlöndunum og ég held að við eigum að fylgja þeim. Í Bandaríkjunum er þetta allt öðruvísi. Þar má nú eiginlega bara allt. Mér skilst að lögreglan þar megi meira að segja fara með ósannindi til að lokka í vitnaleiðslum fram upplýsingar frá glæpamönnum. Ég tel að það sé ekki leið sem við eigum að fara.

En það er mikilvægt að hafa traust á lögreglunni og ég held ef að lögreglan fær þessar heimildir sé það hlutverk okkar þingmanna að vera ekki að grafa undan (Forseti hringir.) trausti á lögreglunni eins og allt of oft er gert hér úr þessum stól.