132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:52]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um stóru tíðindin. Það eru sannarlega stór tíðindi. Í gær var okkur sagt frá 250 þús. tonna álveri á Bakka og það er talað um Helguvík með álíka stærð. Það er verið að stækka Norðurál, það er verið að byggja nýtt álver á Austurlandi og það er verið að tala um stækkun í Straumsvík. Þetta eru mikil tíðindi.

Ég vil samgleðjast íbúum á Austfjörðum og Norðurlandi eystra annars vegar með að fá að sjá atvinnu á svæðinu og hins vegar að fá von, en ég vil minna á það að vonir fyrir austan voru mjög rýrar í roðinu til þess að lifa á um langan tíma og Norðurland eystra er ekki með þessi spil í hendi enn þá.

Frjálslyndi flokkurinn styður skynsamlega nýtingu orkulinda þó með þeim fyrirvara að umhverfimat verði gert og náttúran njóti vafans í öllum tilvikum. En af hverju eru menn að gleðjast yfir að fá þarna atvinnutækifæri? Það er vegna þess að atvinna á landsbyggðinni, atvinnutækifærum á landsbyggðinni hefur fækkað stórlega, fólkinu hefur fækkað og eftir sem áður, þrátt fyrir fámenni, þá er ekki atvinna fyrir alla. Þess vegna gleðjast menn. Það er vegna þess að stefna stjórnvalda hefur leitt til þess að það er nánast hrun á landsbyggðinni. Á að bregðast við því með fleiri álverum? Á að setja álver á Norðurland vestra, á Vestfirði, á Vesturland? Er þetta lausnin á byggðavandanum?

Ég held að það væri betra að líta aðeins nær og skoða þær auðlindir sem við höfum, ekki bara jarðvarmans og vatnsorkunnar heldur líka til þeirra náttúruauðlinda sem við eigum að virkja. Við eigum að nýta einstaklingsframtakið eftir því sem unnt er og nota það okkur til framdráttar. Samfélag sem byggir eingöngu á verksmiðjurekstri er og verður fátæklegt samfélag. Álglýjan hefur byrgt okkur alla sýn á skynsamlega nýtingu auðlinda okkar hér á Íslandi.