132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

141. mál
[14:56]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá prýðilegu umræðu sem hefur farið fram um þetta lagafrumvarp sem borið er fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og gengur út á að rýmka heimildir sveitarstjórna til útsvars, en frumvarpið er sett fram í samhengi við tillögur ríkisstjórnarinnar, og reyndar framkvæmd nú orðið, um að lækka tekjuskattsprósentuna almennt. Hér erum við því að gera ráð fyrir tilfærslum á skattheimtu, að færa skattfé, sem áður rann til ríkisins, til sveitarfélaganna, ef þau svo kjósa.

Ég vil að mörgu leyti taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni hvað varðar forræðishyggju gagnvart sveitarfélögum í landinu. Ég er honum sammála um að í reynd eigi það að vera ákvörðun þeirra hve langt eða skammt eftir atvikum þau ganga í skattheimtu. Þannig skildi ég orð hv. þingmanns, að í reynd ætti ekki að vera þak á útsvarsprósentunni. Þakið sem yrði myndað kæmi til sögunnar í pólitískum stefnuyfirlýsingum og í þeim veruleika sem sveitarstjórnarmenn síðan smíðuðu í þeim stakki sem þeir sniðu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal var á annarri skoðun ef ég skildi hann rétt. Hann vildi ekki ganga lengra í að rýmka skattheimildir sveitarfélaganna og spurði: Hvar endar það ef menn halda áfram að rýmka útsvarsprósentuna? Það kemur fram í yfirliti sem birtist með frumvarpinu að því fer fjarri að öll sveitarfélög í landinu hafi nýtt útsvarsheimildir sínar. Mörg sveitarfélaganna hafa að vísu gert það. En það er engu að síður allmikill hópur sveitarfélaga sem er undir því marki sem nú er heimilt, þ.e. 13,3%.

Síðan hafði hv. þm. Pétur H. Blöndal nokkur orð um skattstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vildi skattleggja sífellt meira og meira. Það er alrangt. Við erum ekki skattaflokkur í þeim skilningi að við teljum að skattar séu af hinu góða, óháð því hversu langt er gengið eða hver er skattlagður. Við deilum um það hvernig eigi að deila skattbyrðinni. Okkur finnst henni ekki réttlátlega deilt, skattar eru ekki lagðir á þjóðina á réttlátan máta. Við viljum ýmsar breytingar og höfum flutt um það tillögur. Við höfum viljað hækka fjármagnstekjuskatt, svo dæmi sé tekið, en reyndar viljað létta skattheimtu af smásparandanum í fjármagnstekjuskattkerfinu. Við höfum viljað skattleggja meira þá sem eru aflögufærir en minna hina sem hafa minna á milli handa. Þannig höfum við mótmælt skattheimtu á öryrkja, atvinnulausa og láglaunafólk svo dæmi sé tekið.

Við viljum hins vegar vera sjálfum okkur samkvæm og afla þeirra tekna sem við viljum framkvæma fyrir. Það er svo allt annar handleggur. Við viljum sýna ábyrgð hvað það snertir. Ég er einnig sammála hv. þm. Pétri Bjarnasyni, Frjálslynda flokki, að sveitarfélögin hafi iðulega verið of fús til að ganga til samninga um tilfærslur á verkefnum án þess að þeim séu tryggðir nægilegir tekjustofnar til að rísa undir þeim skuldbindingum sem slíku fylgja. Ég held að þetta sé alveg hárrétt ábending af hans hálfu. Þannig er ég því fylgjandi, svo dæmi sé tekið, að ýmis verkefni séu færð til sveitarfélaganna en að því tilskildu, og það er mjög mikilvægt, að þeim séu áður tryggðir nægilegir tekjustofnar.

Síðan spannst mjög fróðleg og skemmtileg umræða hér um þjóðaratkvæðagreiðslur og atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem mér finnst mjög umhugsunarverð. Hann vísaði til reynslu í Bandaríkjunum og tók dæmi um hvernig lýðræðislegar kosningar geta hæglega snúist upp í þá andhverfu sína að bitna á hinum veikustu í þjóðfélaginu. Þegar horft er mjög afmarkað á tiltekna þætti og það síðan sett inn í atkvæðagreiðslu vilji það stundum gleymast að það er í fleiri horn að líta. Það vilji gleymast að til fleiri þátta er að líta í samfélagsþjónustunni og ef fjármagninu er beint á einn stað öðrum fremur kunni þeir að vera illa settir. Þetta finnst mér vera mjög gott innlegg í þessa umræðu. En mér fannst hins vegar þær hugmyndir sem hv. þm. Pétur H. Blöndal setti fram, um tvær fjárhagsáætlanir og tvær framkvæmdaáætlanir, að mörgu leyti skemmtilegar og vel umræðunnar virði og rétt að þróa þær áfram. En í reynd er þetta eins konar framlenging á því fyrirkomulagi sem við búum við. Stjórnmálaflokkarnir eru náttúrlega í mjög grófum dráttum að setja fram stefnu hvað varðar skattheimtu og framkvæmdir þó að þetta séu miklu afmarkaðri og skýrari línur sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill draga upp með tilliti til slíkra kosninga. Þetta er athyglisverð umræða og mikilvægt að taka hana hér í þingsal og þróa hana síðan áfram.

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal líka hvað varðar einkaframkvæmdina, og þær skuldbindingar sem þar er iðulega verið að gefa, ábyrgðarlaust, á framtíðina. Fjármögnun einkaframkvæmdar kemur iðulega ekki fram í bókhaldi sveitarfélaga og ríkis en byggist á skuldbindingu um viðskipti til langs tíma og þar af leiðandi skattheimtu á komandi árum. Þetta er ábending sem áður hefur komið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og er alveg hárrétt og í þeim anda sem ég hef mjög oft talað fyrir hér í þingsalnum.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mál og ítreka ósk um að frumvarpið verði látið ganga til umfjöllunar og afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.