132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:34]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Meginmálið þar er að leyfa ekki hækkun á vöxtum á lánum sem eru verðtryggð. Nú hefur orðið mjög mikil breyting á lánamarkaði þannig að ég hygg að þau lán sem hér um ræðir séu nánast að hverfa þannig að mengi þeirra lána sem um er að ræða er tómt á máli stærðfræðinnar.

Í árdaga verðtryggingarinnar þegar hún var almenn hjá lífeyrissjóðunum, 1982 eða um það bil, byrjuðu lífeyrissjóðirnir með 2,5% vexti og verðtryggingu. Þeir vextir voru hækkaðir í þrepum upp í 10% raunvexti, frú forseti, og það var afskaplega þungbært fyrir marga lántakendur á þeim tíma að greiða þá vexti. Síðan hafa þeir lækkað aftur. Þá kom mér oft til hugar að það hefði verið skynsamlegt að hafa svona frumvarp vegna þess að verðtryggingin á að dekka og bæta eiganda fjárins þá áhættu sem hann hefur af verðbólgu.

Greinargerðin er í mínum huga eiginlega óður til verðtryggingar því að hún metur með réttu kosti verðtryggingar umfram óverðtryggð lán fyrir lántakendur því að hún minnkar áhættu lánveitanda þannig að hann þarf ekki að taka áhættuálag inn í vöxtunum. Hér segir hins vegar, með leyfi frú forseta: „Íslenskir lánveitendur vilja hafa allt sitt á þurru.“ Hverjir skyldu það nú vera? Þetta eru jú lífeyrissjóðirnir. Þeir eru lánveitendur í stórum stíl á Íslandi. Athafnamenn og fyrirtæki í landinu eru lántakendur og almenningur líka, því miður er allt of lítið af sparifjáreigendum. Það eru lífeyrissjóðirnir sem vilja hafa allt sitt á þurru og það er bara ágætt fyrir hönd lífeyrisþeganna sem taka þetta fé út sem lífeyri seinna meir. En eins og ég sagði áður er markaðurinn gjörbreyttur, það er svona eitt og hálft ár síðan. Eftir að bankarnir komu inn á þennan markað lækkuðu þeir vexti umtalsvert. Það er sennilega mesta kjarabót sem íslenskir launþegar hafa fengið. Afleiðingin er stórhækkun á húsnæði sem sumir segja að sé slæmt en fyrir flesta íbúðareigendur er það mjög gott vegna þess að eign þeirra hefur hækkað umtalsvert. Lánin þeirra hafa lækkað sem hlutfall af eigninni og þeir hafa orðið ríkari, miklu ríkari og geta tekið lán út á þessa eignaaukningu, ef þeir kæra sig um, og sumir hafa, kannski því miður, gert það.

Staðan í dag er ekki sú að lántakandi sé ofurseldur lánveitandanum. Það liggur við, og margir bankamenn mundu segja það, frú forseti, að lánveitandinn sé ofurseldur lántakandanum. Nú leita menn logandi ljósi að góðum lántakanda út um allt sem vill borga sífellt lægri og lægri vexti. Það er því komin mjög mikil samkeppni í þennan markað sem greinargerð frumvarpsins tekur greinilega ekki mið af. Bankarnir bjóða núna langtímalán með verðtryggingu og föstum vöxtum. Það er ekkert verið að tala um breytilega vexti lengur. Reyndar eru sumir bankar með þann hátt á að þeir veita lán til fimm ára og þá er lánið uppsegjanlegt og menn semja um nýja vexti að fimm árum liðnum sem tryggir báða aðila ef vextir skyldu lækka eða hækka.

Hv. þm. Pétur Bjarnason gat um lán sem hann hafði tekið 1986 að upphæð 500 þús. kr. Ef sá hv. þingmaður settist nú niður og reiknaði þau laun sem lánið svaraði til á þeim tíma og þau laun sem hann hefur í dag fyrir sömu vinnu þá er ég viss um að dæmið verður afskaplega jákvætt hjá honum vegna þess að launin hafa hækkað langt umfram verðlag fyrir óbreytta vinnu, sömu vinnu, ekki fyrir þingmennskuna. Laun hafa hækkað langt umfram verðlag á síðustu tíu árum, hverjum sem það er að þakka — það er búin að vera ágætisríkisstjórn allan tímann — og ég hugsa að hann sé búinn að „græða“ miðað við laun umtalsvert á þessu láni sínu. En það væri gaman að sjá þá útreikninga, hvað hann fékk lánað í launum á sínum tíma og hvað hann er búinn að borga í launum og hvað hann skuldar enn þá miðað við laun. Ég hugsa að það sé mjög jákvætt fyrir hann eins og fyrir alla aðra landsmenn vegna þess að launin hafa hækkað svo mikið umfram verðlag.

Þetta frumvarp er að mínu mati ágætt. Það hefði átt að koma 1982, þá hefði verið þörf á því þegar lífeyrissjóðirnir byrjuðu með lága vexti og hækkuðu þá í sífellu. Ég hygg að mengi þeirra lána eða þau lán sem falla undir þetta frumvarp séu orðin sáralítill hluti og þeir aðilar sem vilja geta greitt þau upp og tekið lán með miklu lægri og föstum vöxtum hjá hvaða banka sem er.