132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Vextir og verðtrygging.

173. mál
[15:40]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé alveg rétt miðað við eðlilegar forsendur og ef launin mín hefðu verið reiknuð kannski 6–8 árum seinna, en eins og hv. þingmaður veit var misgengi á árunum eftir 1986 sem skekkti þessa mynd verulega. Ég hef ekki þessa útreikninga á reiðum höndum en ég held samt sem áður að þessi greiðsla af láninu sé heldur meiri en sem nemur hagræði og þótt tekið sé tillit til launa. Mengi lánanna er tómt. Það getur vel verið fyrir þá sem fara út í það að skuldbreyta, ég er enn þá með þetta lán þannig að mitt mengi fer í að greiða það og líklega er ekki hagstætt að greiða jafngreiðslulán á síðustu árum. Hv. þingmaður þekkir þessar reglur mjög vel en þá eru fyrst og fremst afborganir eftir en ekki vextir.

Ég vildi segja frá því hér að Martinus Simson, ljósmyndari á Ísafirði, hélt marga fyrirlestra og hann skrifaði heila bók um vexti og hann hélt því statt og stöðugt fram að vextir væru sending frá hinum vonda og það væri eiginlega lausn á alheimsvandanum að fella niður alla vexti, alls staðar. Það var skoðun hans, sem ég hef svo sem ekki afstöðu til, en markaðurinn er breyttur, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, og það hlýtur að skýra það að eitthvað var bogið við ástandið áður fyrst nú er hægt að bjóða 4 eða 4,15% vexti og það lýsir því hvað stefnan hlýtur að hafa verið óhagstæð áður fyrst allt í einu er hægt að gera þetta núna.