132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:50]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur nú talað hér síðan um miðjan dag í gær með örstuttu hléi. Hann hefur farið víða um þetta frumvarp til vatnalaga sem við ræðum hér. Mig langaði fyrst og fremst að biðja hv. þingmann að fara yfir eitt mál, eða reyndar tvö. Það fyrra er varðandi eignarréttinn sem honum var tíðrætt um í ræðu sinni. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fasteigninni, jörðinni, landinu, fylgi eignarréttur á vatninu og mig langar því að spyrja hv. þingmann einmitt vegna þess: Ef sú leið væri farin sem hann telur að eigi að fara, hvernig væri þá með aðila sem bæði nýta kalt vatn á jörð sinni og selja það til nota annars staðar? Sama á við með heitt vatn sem verið er að virkja og nota. Við getum nefnt fyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur sem keypti á sínum tíma land á Nesjavöllum í Grafningi sem þá var. Hún hefur nú keypt land á Hellisheiði. Hvernig fer með eignarréttinn sem þessi fyrirtæki nýta og eru að nota sér til handa? Það eru jafnframt til virkjanir sem nota gas sem kemur úr jörðu, koltvísýring, nota hann og selja af jörðunum í iðnað og til annarrar atvinnustarfsemi. Telur ekki hv. þingmaður að ríkið væri skaðabótaskylt ef farið yrði að ráðum hans?