132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum rakið það, hv. stjórnarliðar, að það er að meginefni til sameiginleg niðurstaða sérfræðinga í eignarrétti á 20. öldinni að vatnsauðlindin er skilgreind sem eignarréttindi landeigenda. Hv. stjórnarandstæðingar hafa ekki sýnt fram á neitt annað en að þetta sé álit sérfræðinga þjóðarinnar á 20. öldinni, og ég bíð eftir því að fá þann rökstuðning.

Við erum að samræma löggjöf til samræmis við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu frá árinu 1998 þar sem skilgreiningin er fyrir hendi. Ég held að það sé ágætt að samræma löggjöfina og ég get ekki séð að landið hafi farið á annan endann þrátt fyrir að þeim lögum hafi verið breytt frá 1998 enda er engin efnisleg breyting. (MÁ: Hvaða máli skiptir þetta þá?)

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson segir að vatnið eigi að vera eign þjóðanna, þetta sé ekkert endilega eign okkar Íslendinga, eins og hv. þingmaður nefndi í fimm tíma langri ræðu sinni áðan. Er það þá þannig, skil ég hv. þingmann rétt að hann telji að vatnsauðlind Íslendinga eigi ekki að vera í eigu Íslendinga heldur þjóðanna í heiminum? Ef hann telur að vatnsréttindi landeigenda og Íslendinga eigi að heyra undir önnur þjóðríki og önnur lönd þannig að Bandaríkjamenn gætu farið að sigla hingað og tekið vatn í stór skip og annað slíkt. Ef hann heldur því fram erum við gjörsamlega á andstæðri skoðun.

Því miður virkar málflutningur Samfylkingarinnar út og suður í málinu og því miður náði hv. þingmaður ekki í fimm tíma langri ræðu sinni að skýra stefnu Samfylkingarinnar í þessum málaflokki.