132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um vatnalög, sennilega eitt umdeildasta og óvinsælasta frumvarp sem frá ríkisstjórninni hefur komið í seinni tíð. Þetta er í þriðja skipti sem frumvarpið er lagt fyrir Alþingi. Lítils háttar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það upphaflega kom fram en alltaf og ekki síður nú en í fyrri skiptin tvö hefur það sætt mikilli gagnrýni, bæði utan veggja þingsins og innan þingsins einnig. Ljóst er að í þessu máli stendur stjórnarandstaðan sameinuð um að reyna að koma í veg fyrir að lagafrumvarpið nái fram að ganga.

Í fyrri hluta ræðu minnar fjallaði ég um frumvarpið almennt og þau ágreiningsefni sem einkum hafa sett svip á umræðurnar. Menn takast á um grundvallaratriði, eignarhald á vatni, en stjórnarmeirihlutinn heldur því fram að í frumvarpinu, sem um margt byggir á lögunum frá 1923, vatnalögunum sem svo eru nefnd, felist ekki neinar breytingar að innihaldi til, einvörðungu sé verið að gera breytingu á forminu sem lagafrumvarpið er sett fram í.

Við hins vegar höldum því fram í stjórnarandstöðunni að með því sé verið að styrkja eignarréttarákvæði og eignarhald á vatni. Það er skýrt kveðið á um þetta í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir að markmið þess sé að skapa skýrt eignarhald á vatni.

Í fyrri hluta ræðu minnar áður en hlé var gert á henni — ég tek eftir því að það er eitthvert ólag hlaupið í klukkuna sem er hér í borði hjá mér og er hún farin að hraða sér um of, sýnist mér, nokkuð sem ætti ekki að trufla mig vegna þess að tíminn sem ég hef til þessarar umræðu er ekki takmörkunum háður. — Í fyrri hluta minnar ræðu rakti ég nokkuð athugasemdir sem fylgja lagafrumvarpinu frá stjórnarmeirihlutanum og var að því kominn að víkja að áliti minni hluta iðnaðarnefndar en meiri hlutinn rökstyður fyrst og fremst í framhaldsáliti sínu minni háttar breytingar sem verið er að gera á upphaflegu frumvarpi.

Í áliti minni hluta iðnaðarnefndar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru vatnsréttindi skilgreind með neikvæðum hætti, þ.e. með almennri skilgreiningu, í stað þess að talin séu upp öll réttindi fasteignareigenda eins og gert er í núgildandi vatnalögum en það kallast jákvæð skilgreining réttinda. Í þessu gæti falist meiri breyting en ætla mætti af skýringum með málinu.“

Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. frumvarpsins segir: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni.“ Það verður að telja vafasamt orðaval ef hér á fyrst og fremst að vera um formbreytingu að ræða eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu. Þar var einnig sagt að í þessari nýju skilgreiningu á vatnsréttindum fælist í raun meginatriði frumvarpsins en þó var sérstaklega áréttað að þar væri „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða. Meginatriði frumvarpsins var sem sagt formbreyting samkvæmt þeim skilningi sem fram kom í athugasemdum með því á síðasta þingi. Í athugasemdum frá laganefnd Lögmannafélags Íslands var sérstaklega fjallað um það orðalag og sagt að það væri til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og að mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að hér væri einungis um formbreytingu að ræða.“

Reyndar er, herra forseti, vikið að þessu í álitsgerð frá meiri hluta iðnaðarnefndar því að þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni. Í athugasemdum með frumvarpinu þar sem fjallað er um skilgreiningu eignarréttar er tekið svo til orða að hér sé „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða. Á fundi nefndarinnar með frumvarpshöfundum kom fram að orðin „fyrst og fremst“ hefðu átt að falla brott við endurskoðun frumvarpsins.“

Það er því á þessu tekið í áliti meiri hluta iðnaðarnefndar.

Áfram segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Í sérstakri viðbótarumsögn Orkustofnunar sem nefndinni barst var tekið sérstaklega undir þessa athugasemd laganefndar Lögmannafélagsins. Meiri hluti nefndarinnar hefur lýst því yfir að þessi breyting sé einungis formbreyting en muni engin áhrif hafa á raunveruleg réttindi. Höfundar frumvarpsins hafa ítrekað fullyrt að engin ný réttindi muni skapast eða glatast verði það að lögum. Eftir stendur að skilningur þeirra sem sömdu frumvarpið var og er óumdeilanlega að aðalmarkmið þess sé „skýrt eignarhald á vatni“. Það vekur óneitanlega tortryggni þegar því er haldið fram að aðalmarkmið lagasetningarinnar sé formbreyting eins og nú er orðin niðurstaða meiri hlutans.“ — Eins og ég gat um þegar ég vísaði í álit meiri hlutans hér fyrir stundu.

Áfram segir í áliti minni hluta iðnaðarnefndar, með leyfi forseta:

„Það að hér gangi mönnum annað til en umhyggja fyrir formi og samræmi sannaðist þegar aðalhöfundur þessarar lagasmíðar svaraði spurningum nefndarmanna, en hann var m.a. spurður hvort það gæti skapað skaðabótaábyrgð á hendur ríkinu ef ákvæði um vatn sem nú eru í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu yrðu numin brott. Svarið var skorinort „já, án vafa“. Höfundar frumvarpsins höfðu ítrekað vísað til þessara ákvæða um vatn sem sambærilegra við þau sem deilt er um í þessu máli. Þarf frekari vitna við? Ef sambærileg ákvæði laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þau sem hér um ræðir færa mönnum skaðabótarétt verði gerð á þeim sú formbreyting að færa réttindin til fyrra horfs hlýtur að mega gagnálykta á þann veg um þá breytingu sem felst í frumvarpinu að í henni felist breyting á réttarstöðu.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Sjá má af framlögðum gögnum og greinargerð með þessu máli að frumvarpinu ásamt frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum var ætlað að koma í stað gildandi vatnalaga. Síðarnefnda frumvarpið var einnig lagt fyrir á 131. löggjafarþingi og var til meðferðar í iðnaðarnefnd Alþingis en hlaut aldrei fullnaðarmeðferð og hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi að nýju. Þess í stað flutti iðnaðarnefnd á 131. þingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins í iðnaðarnefnd tóku þátt í flutningi þess máls í þeim tilgangi að kostur gæfist á heildstæðari undirbúningi frumvarps til laga um jarðrænar auðlindir og boðaðs frumvarps sem byggt yrði á tilskipun Evrópusambandsins um aðgang að vatni. Fyrrnefnt frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu náði ekki afgreiðslu á síðasta þingi en var endurflutt af iðnaðarráðherra á þessu þingi. Ráðherra hafði þá fellt út úr því bráðabirgðaákvæði um skipan nefndar til að móta reglur um framtíðarnýtingu auðlinda og meðferð umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Iðnaðarnefnd tók þá tillögu upp aftur og flutti auk þess breytingartillögur um þrengingu á heimildum ráðherra til að veita vilyrði fyrir nýtingarleyfum skv. 5 gr. laganna. Þetta mál, þ.e. breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, var afgreitt sem lög frá Alþingi á þessum vetri.“

Um það frumvarp og þá afgreiðslu urðu miklar deilur í þinginu. Í áliti minni hlutans er vikið að þeim deilum en sem kunnugt er stóð Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða þingmenn hreyfingarinnar mjög einarðlega gegn samþykkt þess frumvarps á ýmsum forsendum sem þá voru rækilega tíundaðar.

Ég ætla ekki að rekja þessa álitsgerð frekar í smáatriðum. Hér er verið að vísa í aðrar lagasmíðar og aðra lagabálka. Vísað er í lög á sviði umhverfisréttar og áréttað það sjónarmið okkar stjórnarandstöðunnar að skoða eigi þessi mál heildstætt og byrja á hinum endanum, ef svo má að orði komast, skilgreina hinn umhverfislega þátt og rétt almennings til eignar á vatni og síðan eigi að feta sig út í nýtingarákvæðin.

Í umsögn frá minni hlutanum sem er undirrituð af þeim hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og Helga Hjörvar en með samþykki hv. þm. Hlyns Hallssonar, sem er áheyrnarfulltrúi af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, er vakin athygli á því mikla hlutverki sem Orkustofnun er ætlað við framkvæmd og eftirlit sem sprettur af þessari lagasmíð.

Í lok álitsgerðarinnar er sett fram tillaga um að þessu máli verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

„Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:

a. með þeirri lagasetningu sem felst í frumvarpinu sé hróflað með óábyrgum og óvarlegum hætti við farsælli niðurstöðu Alþingis um nýtingarrétt á vatni frá 1923, sem fólst í setningu vatnalaga,

b. þessi lagasetning, og þar með afnám gildandi vatnalaga, sé ekki tímabær á meðan ekki liggja fyrir frumvarp um jarðrænar auðlindir og frumvarp á grundvelli vatnatilskipunar Evrópusambandsins, og

c. grundvöll skorti til allrar þessarar lagasetningar þar til pólitísk sátt er fundin um það hvernig ráðstafa beri auðlindum í þjóðareign, hvort og hvernig þeim verði fundinn staður í stjórnarskránni og hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu þeirra, leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.“

Sem áður segir undirrita þetta hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Jóhann Ársælsson, sem var framsögumaður í þessu máli, en hv. þm. Hlynur Hallsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessari málsmeðferð.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að vísa aðeins í umræðu sem var hér á þinginu í tengslum við lögin um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu árið 1998. Þetta er að mörgu leyti mjög fróðleg umræða sem kemur inn á efnisþætti þessa frumvarps og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Þá gerðist það, líkt og gerðist í þessari umræðu, að þáv. iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, hafði framsögu með svipuðum hætti og hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði núna, lagði áherslu á eignarréttarákvæðin í lögunum, þá í lögum um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, nú í vatnalögunum.

Hæstv. þáv. iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, sagði m.a., með leyfi forseta:

„Grundvallarforsenda þess að koma megi á samræmdu skipulagi í nýtingu auðlinda er að kveða skýrt á um eignarrétt á þeim.“

Þetta sagði hæstv. þáv. iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, og þetta var grunntónninn í ræðu hv. formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar, í sinni framsöguræðu.

Finnur Ingólfsson, hæstv. þáv. ráðherra, sagði reyndar að rétt væri að geta þess að umræða og meðferð þessara mála á fyrri hluta og fram á miðja þessa öld hefði farið fram við allt aðrar kringumstæður en nú, m.a. með tilliti til réttarframkvæmda, nýtingarmöguleika og tækni til nýtingar. Þetta er allt saman mikið rétt. En sem sagt, þetta er áherslan sem hann leggur í upphafi síns máls, að treysta eignarrétt á í þessu tilviki auðlindum í jörðu, sem var þá vatn neðan jarðar.

Hann segir að þetta hafi reyndar verið svo um aldir en með lögum um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sé nauðsynlegt að kveða skýrar á um þessi ákvæði.

Nú taka aðrir menn til máls í þessari umræðu, þarna í febrúar fyrst, 1998, og fara að efast um þessar fullyrðingar hæstv. þáv. iðnaðarráðherra, Finns Ingólfssonar, um að eignarrétturinn hafi verið eins skýr og hann vilji vera láta og m.a. er vísað í greinargerðir eftir Bjarna Benediktsson frá 1945 og í greinargerð eftir prófessor Ólaf Jóhannesson frá 1956 en þar hafi komið fram að hægt væri að setja nýtingu í jarðhita, þótt á eignarlandi væri, almenn takmörk án þess að það varðaði bótarétt eða rækist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, hin sömu og eru í gildi í dag.

Þetta kemur fram aftur og ítrekað í þessari umræðu og hér segir hv. þm., sem þá var, Hjörleifur Guttormsson:

„Frumvarp þetta er borið fram af stjórnmálaflokkum sem fyrir nokkrum áratugum lutu forustu manna eins og Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar, virtra fræðimanna í lögum. Þeir stóðu fyrir og vörðu allt önnur sjónarmið í þessum málum, þau sjónarmið að eðlilegt gæti talist að slíkar auðlindir væru lýstar almannaeign, þ.e. sameign þjóðarinnar eða takmörk væru sett varðandi nýtingu þeirra með tilliti til bótaréttar. Þeir hefðu ekki talið að lögfesting slíkra viðhorfa þyrfti að stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.“

Þetta kemur fram í máli hvers stjórnarandstæðingsins á fætur öðrum í þessari umræðu.

Hæstv. þáv. iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson, hamrar hins vegar á eignarréttinum og mikilvægi hans og segir hér, með leyfi forseta, á einum stað:

„Eins og komið hefur fram við umræðuna er hér um að ræða mikilvægt mál sem snýst um eignarhald og eignarréttindi og þarf því ekki að koma á óvart þó pólitískur ágreiningur sé um það mál. Í raun ætti stjórnmálaumræðan að snúast um þessi atriði.“

Í raun ætti stjórnmálaumræðan að snúast um þessi atriði, um eignarhald og eignarréttindi. Það er þungamiðjan í umræðunni núna. Þess vegna eru menn þess mjög meðvitaðir að hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem kemur til með að hafa áhrif langt inn í framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég tel að ein merkasta ræðan sem flutt var við þessar umræður árið 1998, sem fram fóru fyrst í febrúarmánuði og síðan undir vorið í maí, hafi verið flutt af hv. þm. Ragnari Arnalds því að hann fór mjög gaumgæfilega og rækilega yfir sögu þessara mála. Hann segir í upphafi síns máls, með leyfi forseta:

„Ég vil taka það skýrt fram í öndverðu að ég er alls ekki að reyna að hafa rétt af landeigendum. Ég tel að bændum veiti ekkert af því að halda þeim rétti sem þeir hafa haft á liðnum öldum og fram á þennan dag, m.a. í netlögum. En það á ekki að gefa mönnum eitthvað sem þeir hafa ekki átt og það á ekki að láta menn fá miklu meiri rétt en þeir hafa nokkru sinni haft en það er verið að gera með þessum lögum. Í dag er bændum heimilt að leggja net til fiskiveiða, t.d. silungsveiða eða grásleppuveiða í sínum netlögum en hún er ekki í dag nema niður á tæplega þriggja metra dýpi. Þessum rétti eiga bændur að sjálfsögðu að halda og ég hef t.d. lagt mig í líma við það á Alþingi að koma í veg fyrir að verið sé að þrengja kost bænda því að eins og menn vita, þá hefur það verið gert hvað eftir annað með hagsmuni laxveiðibænda inn til dala og fjær sjó í huga, að réttur bænda sem eiga land að sjó hefur verið rýrður og þeim gerðir þrengri kostir en áður fyrr var. Þetta tel ég vera réttarskerðingu og hef oft á Alþingi einmitt tekið hagsmuni þeirra upp.“

Hér er ég að vitna í hv. þm. Ragnar Arnalds þar sem hann var að ræða um lög um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, er nýgenginn í salinn vil ég rifja það upp að ég er að vísa í umræðuna sem þarna átti sér stað um önnur lög en tengd, um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem menn voru að takast á um sömu atriði og við erum að ræða núna, um eignarhald á auðlindum, við erum að ræða núna eignarhald á vatni. Þáv. hæstv. ráðherra, sem hafði framsögu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hamrar ítrekað á því í fyrsta lagi að grundvallarforsenda þess að koma megi á samræmdu skipulagi á viðkomandi sviði sé að kveða skýrt á um eignarrétt á þeim.

Síðan segir hann, og það kemur honum ekkert á óvart að það skuli vera mikil umræða um þetta, að við séum að ræða mikilvægt mál sem snúist um eignarhald og eignarréttindi og það þurfi ekki að koma neinum á óvart þó pólitískur ágreiningur sé um það mál og í raun ætti stjórnmálaumræðan fyrst og fremst að snúast um þessi atriði.

Mikið rétt, ég tek undir þetta. Síðan eru menn að vefengja að þessi skilningur ráðherrans hafi að öllu leyti verið réttur þegar vísað er til fortíðarinnar. Reyndar segir hæstv. ráðherra að tímarnir séu að breytast og aðstæður taki breytingum en hann er engu að síður að vísa aftur í aldir.

Þá eru menn að færa rök fyrir því við þessa umræðu, hver á fætur öðrum, að forverar eða forveri hæstv. iðnaðarráðherra, Ólafur Jóhannesson prófessor, hafi í raun talað fyrir öðrum sjónarmiðum og einnig Bjarni Benediktsson, sem gegndi ráðherrastöðu og var formaður Sjálfstæðisflokksins um langan tíma, en þeir hafi talað fyrir almannaeignarsjónarmiðinu og það ætti ekki að stangast á við stjórnarskrá að setja almennar reglur sem tryggðu almenningi rétt, að auðlindir væru lýstar almannaeign.

Síðan er ég kominn að ræðu sem var grundvallandi við þessa umræðu, það var ræða hv. þm. Ragnars Arnalds, og ég var þar kominn, hv. þingmaður, að ég vísaði í upphafsorð hans þar sem hann segir að hann hafi ekki viljað á nokkurn hátt taka réttindi af bændum.

Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Ég tel það aftur á móti jafnmikla nauðsyn að tryggja að réttur landeigenda sem eiga land að sjó verði ekki miklu meiri en hann hefur verið í gegnum aldirnar og fram á þennan dag eins og felst í þessum lögum. Svo ég víki fyrst að netlögunum áframhaldandi sem ég hef nokkuð minnst á, þá er það svo að réttarheimildir um netlög er fyrst og fremst í dag að finna í hinni fornu og ágætu Jónsbók sem enn er í gildi á Íslandi hvað þetta varðar þó að kannski hafi ekki margir gert sér grein fyrir því. Í 2. kapítula rekabálks Jónsbókar segir, með leyfi hæstv. forseta …“

Ég ætla ekki að fara að lesa það neitt nánar en inntakið er það að þessi réttindi séu réttindi sem ekki séu bundin í eignarrétt. Hann vísar í margvísleg önnur réttindi, rétt til beititekju, en að allt séu þetta óbein eigarréttindi. Ég vitna áfram í hv. þm. Ragnar Arnalds:

„Þetta eru réttindi ábúanda jarðar sem á ekki svæðið sem er innan netlaga heldur á hann einungis óbeinan eignarrétt. Hann á nytjarétt, hann á afnotarétt, rétt til þess að nýta tiltekin hlunnindi á þessu svæði án þess að eiga sjóinn innan þessara marka eða eiga hafsbotninn sem þarna er undir.“

Þetta eru rökin og þetta er ástæðan fyrir því að hann vitnar þarna í Jónsbók, hann er að tala um þessi réttindi, óbeinan eignarrétt. Síðan rekur hann sig í gegnum aldirnar og ég ætla að vísa aftur í ræðu hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Nú ætla ég að koma nánar að vatninu sem líka er verið að einkavæða í þessari löggjöf. Ég vil minna á það hér að vatnsnot eru frá fornu fari almannaréttur á Íslandi, almenningseign. Kalt vatn var aldrei eign nokkurs manns, hvort sem það var rennandi vatn eða stöðuvatn. Kalt vatn var einungis undirorpið eignarrétti á þann hátt að það mátti veiða á vatninu eða í vatninu en vatnið sjálft var aldrei undirorpið einkaeignarrétti. Það er eftirtektarvert, ef skoðuð eru gögn frá fyrri tíð, að heitt vatn og jarðgufa var ævinlega talin almenningseign á Íslandi. Að vísu eru ekki bein lagafyrirmæli um þetta atriði, hvorki í Grágás né Jónsbók. Hins vegar er auðvelt að sjá það af fornum heimildum að svo hafi verið litið á að það væri svo sjálfsagður réttur almennings að eiga frjálsan aðgang að jarðhita á Íslandi að ekki hefur verið talin þörf á því að taka það fram.“

Þarna er sem sagt verið að leggja áherslu á að frá fornu fari hafi hér verið um að ræða almannarétt. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Það er til að mynda ljóst af fjöldamörgum heimildum í Sturlungu að heitar laugar voru almenningsbaðstaðir og raunar meira en það, þær voru samkomustaðir landsmanna. Ef litið er á þá kafla þar sem laugar koma fyrir, sem eru fjöldamargir staðir í Sturlungu, þá rekur maður t.d. augun í Vallalaug í Skagafirði. Hún er nokkuð oft nefnd og gæti ég vissulega farið í að lesa þær tilvitnanir allar en tímans vegna mun ég þó sleppa því.“ — Segir Ragnar Arnalds á sínum tíma.

Hann vísar síðan í Sælingsdalslaug, Reykjalaug í Miðfirði, Laug í Reykjadal í Dölum, Skíðastaðalaug og fleiri og fleiri laugar sem hafi verið samkomustaðir almennings og alveg ótvírætt í almenningseign. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ef við færum okkur nær nútímanum og komum yfir á 18. öldina, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið, þá lýsa þeir jarðgufuböðum sem heilsulind almennings og það er yfirleitt alltaf tengt því að ferðamenn máttu staldra þar við og laugast. Þannig er t.d. greint frá því í ferðabók þeirra að ferðamenn á leið til Alþingis notuðu Reykjalaug, sem er skammt frá Lundarreykjadal, og ekki þarf að segja mönnum af lauginni í Laugardal, þar sem kristnir menn voru skírðir eftir að kristni var lögtekin á Íslandi. Kristnir menn á Íslandi höfðu það fram yfir trúbræður sína í öllum öðrum löndum að þeim þóknaðist að lauga sig í heitu vatni, en annars staðar var mönnum dýft í kalt vatn.“

Síðar segir í þessari ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds, með leyfi forseta:

„Það er líka eftirtektarvert að í hinu mikla verki Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Jarðabókinni, sem var samin 1702–1712, og fjallar um eignarréttindi, fjallar um eignarrétt á landi. Það er verið að gera grein fyrir dýrleika jarða, það er verið að gera grein fyrir því hvaða rétt bændurnir eiga. Þar er hvergi minnst á lauga- eða heitavatnsréttindi, hvergi í allri bókinni er minnst á slík réttindi vegna þess að það var auðvitað ekki litið á það sem réttindi viðkomandi jarða eða bænda. Einkaeignarréttindi yfir þessum gæðum höfðu alls ekki verið stofnuð á þessum tíma “

Og síðar, með leyfi forseta:

„En jarðhitaréttindi, þ.e. réttur almennings til vatns og lands fyrir sundlaugar, þ.e. þessi klassíski yfirborðshiti eða lághiti, var gerður undirorpinn einkaeignarrétti árið 1923.“

Hann nefnir það reyndar annars staðar að þá hafi vissulega verið farið að herða á þessum einkaeignarréttindum í lögum, og aftur minni ég á að verkefni okkar á þá að vera að reyna að losa um þau bönd en ekki herða á þeim eins og gert er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Hér segir enn, með leyfi forseta:

„… í Íslandslýsingu Odds Einarssonar, sem rituð er 1593, er á athyglisverðan hátt fjallað um almannaréttinn hvað varðar heita vatnið, og vil ég leyfa mér að lesa örstuttan kafla eftir Odd í þýðingu Jakobs Benediktssonar því að þetta var ritað á latínu, með leyfi herra forseta:“ — Og hér hefst lestur úr því:

„Fjölmargir á þessum slóðum fullyrða það nefnilega sem sannreynt, að þetta svitabað hafi allt frá fornu fari ekki aðeins læknað kláða og útbrot, heldur líka eytt mörgum öðrum sjúkdómum eða a.m.k. linað þá tíma og tíma. Menn álíta reyndar einnig, að önnur böð og heitar laugar á Íslandi hafi þessa náttúru að leggja fjölmargt til viðhalds heilsunni. Að vísu segja kerlingabækur, að þetta stafi frá einhverjum guðum og vissum mönnum, sem einhvern tíma hafi blessað hina og þessa staði. En vér látum slíkt bull lönd og leið og vitum, að oss bera að játa með tilhlýðilegri þakklátssemi, að hin óeigingjarna náttúra hefur með þessum hætti lagt oss til einstök hlunnindi og mikið djásn.“

Ég endurtek: „… hin óeigingjarna náttúra hefur með þessum hætti lagt oss til einstök hlunnindi og mikið djásn.“ Hv. þm. Ragnar Arnalds les áfram og vekur sérstaklega athygli á eftirfarandi lokasetningu, sem ég ætla að vitna í, með leyfi forseta:

,,Því fullvel veit ég, að ef afnot slíkra heilsulinda væru á valdi einhverra fjárplógsmanna, væru þeir ekki lengi að auka við inntektir sínar.“

Þegar á þessum tíma, 1593, hafa þeir verið til sem vildu auðgast og bæta hag sinn og það er greinilegt á þessari ívitnun að biskupinn, Oddur Einarsson, telur það jafnast á við fjárplógsstarfsemi að fara að selja afnot af jarðhita á Íslandi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna nánar í ræðu fyrrverandi hv. þm. Ragnars Arnalds við umræðuna 1998, um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, en mér finnst hún um margt vera afar fróðleg. Mér finnst hún tengjast þeirri umræðu sem fram hefur farið hér í dag um eignarréttinn því að annars vegar — eins og ég skil þetta og er tilbúinn að taka rökum ef menn vilja sannfæra mig um annað — erum við með þessi gömlu lög frá 1923 sem enginn deilir um að voru heldur að herða á eignarréttarákvæðum frá því sem áður hafði verið, menn höfðu verið að smíða löggjöf, fyrst fossalögin 1907 og síðan þessa löggjöf, fossalögin til að sporna gegn ásælni erlendra manna í íslenskar orkulindir og hins vegar að skjóta lagastoð undir vatnsréttindi almennt. Það deilir enginn um að menn voru heldur að herða á þessum réttindum frá því sem tíðkast hafði frá fornu fari en í þessum lagabálki er vísað til réttarins, nýtingarréttarins fremur en til eignarhaldsins, og þar sem kveðið er á um þetta er það gert á jákvæðan hátt þannig að tilgreind eru þau réttindi sem viðkomandi á að njóta.

Í frumvarpinu sem núna liggur fyrir er hins vegar vísað í eignarréttinn og það er gert á neikvæðan hátt sem kallað er, eignarrétturinn skal vera altækur nema með vissum undantekningum og skilyrðum, og þau eru þá tilgreind í lögunum. Það er þarna sem við höldum fram að verið sé að herða á þessum eignarréttarákvæðum í lögum.

Það er líka fróðlegt að hafa til viðmiðunar umræðuna sem fram fór 1998 því að líka þá sögðust menn ekki vera að breyta neinu frá fyrri tíð, menn sögðust í rauninni ekki vera að breyta neinu frá fyrri tíð. En þegar farið er að gaumgæfa málin, rýna í þessi mál og skoða þau ofan í kjölinn kemur einfaldlega annað í ljós.

Hæstv. forseti. Það er komið vel fram yfir miðnætti og enn eru margir á mælendaskrá í þessu máli. Ég á þess enn kost að taka til máls í annarri ræðu við 2. umr. málsins og síðan er 3. umr. eftir. Ég hef ákveðið að ljúka máli mínu með þessum orðum, vitandi að enn á ég eftir að komast að til að fjalla um þetta mjög svo mikilvæga mál.