132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má alveg túlka svör hæstv. forsætisráðherra þannig að það sé enginn raunverulegur vilji til slíkrar lagasetningar um fjárræði stjórnmálaflokkanna. Að slíka löggjöf skorti varpar skugga á stjórnmálalífið og elur á alls konar tortryggni um starfsemi flokkanna hvort sem hún á við rök að styðjast eða ekki. En síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að setja reglur um þetta. Það væri mjög gagnlegt að fá yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra um viðhorf hans til þeirra hluta, þar sem tekið væri til frambjóðenda í prófkjörum og birtir reikningar og framlög til frambjóðendanna. Ég held að fjárausturinn og auglýsingaflóðið á undanförnum mánuðum og missirum í prófkjörum til borgarstjórnar og Alþingis hafi orðið til að mörgum blöskrar. Það má fullyrða að aðgöngumiðinn að sæmilega öruggu sæti í borgarstjórn og á þingi kosti oft og tíðum 4–8 millj. kr.

Þá má nú spyrja um jafnræði þeirra sem hafa aðgengi að peningunum eða búa yfir fjármunum eða þeirra sem hafa það ekki þegar (Forseti hringir.) kostar svo mikið að taka þátt í lýðræðinu.