132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[12:57]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að minnast á tvö, þrjú atriði. Samkvæmt tölum úr nýjum skýrslum eru stúlkur í háskólum landsins 60% nemenda. Maður veltir því fyrir sér hver ástæða þess sé. Það væri gaman ef hugrenningar hæstv. menntamálaráðherra kæmu fram um það mál.

Hæstv. menntamálaráðherra minntist á lesblindu. Eftir upplýsingum sem ég hef virðist lesblinda hafa þau áhrif á pilta að þeim gengur erfiðlega með lestur. En lesblinda hjá stúlkum hefur áhrif á stærðfræði. Þetta er mjög athyglisvert en mér er vel kunnugt um þetta. Ég vil beina því sérstaklega til hæstv. menntamálaráðherra að hún skoði þetta mál.